Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna segir von er á miklum fjölda skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar. Þau verði stærri og með fleiri farþega en áður.

„Þetta verða tæplega 270 skip í sumar og 280 þúsund farþegar í heildina.“
Er þetta miklu meira en í fyrra og kannski 2019?
„Já þetta er heilmikil aukning frá í fyrra og þó nokkur aukning frá 2019 sem var metár,“ segir Sigurður Jökull.
Á árum áður var algengast að farþegar skemmtiferðaskipa hefðu skamma dvöl í Reykjavík og komu þau flest frá Evrópu. Farþegar stoppuðu kannski í einn dag áður en haldið var aftur til skips. Nú er hins vegar orðið algengt að farþegar hefji eða endi siglingu sína í Reykjavík og stoppi lengur. Reykjavíkurhöfn fer því að líkjast Keflavíkurflugvelli sem miðstöð fyrir farþega.
„Og við erum að bregðast við því með farþegamiðstöð hér á Skarfabakkanum þar sem við stöndum. Til stendur að reisa varanlega farþegamiðstöð sem verður tilbúinn 2025.

Hvað verður hún stór?
„Hún verður um fimm þúsund fermetrar á tveimur hæðum. Með landamæraeftirlit, innritun og alla þá þjónustu sem maður þekkir í flugstöðvum,“ segir Sigurður Jökull.
Farþegarnir fljúgi til dæmis til Íslands og sigli í kring um landið. Sigli svo áfram til Bandaríkjanna eða lengra til Evrópu, þaðan sem þeir fljúgi aftur heim til sín. Farþegar hefji líka siglinguna frá Bandaríkjunum til Íslands, sigli í kringum landið, haldi áfram til Evrópu eða fljúgi heim frá Íslandi.
„Þannig að þeir eru að hefja eða enda ferðina hérna. Þetta þýðir að þeir eru að dvelja í landinu fyrir og eftir. Fara út að borða, gista og leigja bíl og svo framvegis. Þessir farþegar skilja miklu meira eftir sig í hagkerfinu,“ segir Sigurður Jökull.

Þetta hafi aðallega átt við um farþega smærri skemmtiferðaskipa áður en nú eigi þetta einnig við um vaxandi fjölda farþega frá Bandaríkjunum sem komi með mjög stórum skipum. Jafnvel um þrjú þúsund farþegar í hverri ferð sem fljúgi þá ýmist hingað eða héðan.
Á komandi sumri verði skiptifarþegar á bilinu 90 til hundrað þúsund og muni þar mest um aukna umferð frá Bandaríkjunum. Asíumarkaður hafi verið meira og minna lokaður í þrjú ár vegna faraldursins og það auki einnig á vinsældir siglina um norðurhöf.