Enski boltinn

Hættur við að kaupa Man. Utd: „Tek ekki þátt í þessum farsa“

Sindri Sverrisson skrifar
Ákvörðun Glazer-fjölskyldunnar um að efna til þriðju umferðar tilboða í Manchester United bitnar á félaginu að mati Thomas Zilliacus sem er hættur við að reyna að kaupa félagið.
Ákvörðun Glazer-fjölskyldunnar um að efna til þriðju umferðar tilboða í Manchester United bitnar á félaginu að mati Thomas Zilliacus sem er hættur við að reyna að kaupa félagið. Samsett/Getty

Finnski frumkvöðullinn Thomas Zilliacus hefur dregið sig út úr kapphlaupinu um að eignast Manchester United. Hann segir ákvörðun Glazer-fjölskyldunnar, núverandi eigenda enska stórveldisins, um að efna til þriðju umferðar tilboða í félagið vera farsa.

Zilliacus er einn þriggja sem opinberlega hafa lagt fram betrumbætt tilboð í United eftir að efnt var til annarrar umferðar í söluferlinu. Hinir eru sjeikinn Jassim frá Katar og Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe sem er eigandi Ineos.

Hinn 69 ára gamli Zilliacus hefur áður komið að finnska knattspyrnufélaginu HJK Helsinki og íshokkífélaginu Jokerit. Hann segir Glazer-fjölskylduna sína United vanvirðingu með því hvernig söluferlinu hafi verið háttað.

„Þessar frestanir munu gera nýjum eiganda mjög erfitt fyrir við að búa til sigurlið fyrir næstu leiktíð,“ skrifaði Zilliacus á Twitter.

„Tilboðsferlið er orðið að farsa, þar sem Glazer-fjölskyldan sýnir félaginu enga virðingu. Við Jim Ratcliffe og sjeikinn Jassim vorum allir tilbúnir að semja um kaup á United. Í staðinn ákváðu Glazerarnir að hefja nýja umferð,“ skrifaði Zilliacus og bætti við:

„Ég tek ekki þátt í þessum farsa sem snýst um að hámarka gróðann fyrir seljendur á kostnað Manchester United.“

Zilliacus sagði frá því í síðasta mánuði að hann hygðist kaupa helmingshlut í United með það í huga að stuðningsmenn myndu kaupa hinn helminginn, og að þeir gætu þá haft aðkomu að ákvörðunum félagsins. 

Hin bandaríska Glazer-fjölskyldan keypti United fyrir 790 milljónir punda árið 2005 en tilkynnti í nóvember síðastliðnum að hún íhugaði að selja félagið. Fjölskyldan verðmetur United á 5-6 milljarða punda.

Í fyrstu stóðu vonir til þess að sölurferlinu myndi ljúka fyrir lok leiktíðarinnar á Englandi en BBC segir að nú sé það talið ólíklegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×