Handbolti

Fann vilja hjá Björgvini og Donna til að leysa málið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gunnar Magnússon segir hafa verið einfalt að leysa mál Kristjáns Arnar og Björgvins Páls. Mikill vilji hafi verið af beggja hendi að finna lausn.
Gunnar Magnússon segir hafa verið einfalt að leysa mál Kristjáns Arnar og Björgvins Páls. Mikill vilji hafi verið af beggja hendi að finna lausn. Vísir/Samsett

Gunnar Magnússon, landsliðsþjálfari karla í handbolta, segir hafa verið einfalt að leysa deilu Björgvins Páls Gústavssonar og Kristjáns Arnar Kristjánssonar, sem báðir hafi verið allir af vilja gerðir að finna lausn. Þeir eru báðir í landsliðshópi Íslands fyrir komandi verkefni í undankeppni EM í janúar.

Það hefur andað köldu milli Kristjáns og Björgvins sem má rekja aftur til leiks liða þeirra Vals og PAUC í Evrópudeildinni í handbolta í febrúar. Málið hefur verið töluvert í fjölmiðlum og þeir báðir sent frá sér allskyns yfirlýsingar vegna samskipta í aðdraganda leiksins.

Kristján Örn, eða Donni, hafði greint frá því fyrir leik að hann væri að glíma við kulnun en mætti engu að síður á parketið. Eitthvað sem Björgvin Páll hafði hvatt gegn í aðdraganda leiksins, líkt og sjá má á samskiptunum sem þeir birtu á samfélagsmiðlum.

Björgvin Páll bauðst svo til þess að gefa ekki kost á sér í íslenska landsliðið til að auðvelda landsliðsþjálfaranum valið og starfið, ef Kristján Örn yrði valinn.

Vilji beggja að finna lausn

Gunnar Magnússon, landsliðsþjálfari Íslands, segir málið aftur á móti leyst og þess vegna séu þeir báðir í landsliðshópnum sem var valinn í morgun.

„Það sem gerðist er bara að við leystum málið innanhúss. Allir skilja sáttir. Það er oft í svona málum að menn deila sín á milli í sínum liðum og svo á endanum var vilji þeirra beggja að leysa málið. Það var kannski mitt frumkvæði sem leiddi til þess að við leystum málið og förum sameinaðir í þetta verkefni,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

„Ég var í sambandi við þá og þeir báðir höfðu mikinn vilja til þess að leysa vandamálið og við leystum þetta. Að mínu mati er þetta mál úr sögunni,“ segir hann enn fremur.

Verið lengi í sambandi við þá

Aðspurður um frekari skýringar á því hvað hafi farið fram þeirra á milli segir Gunnar að hann hafi viljað gefa þeim tíma. Eftir að hann fann vilja beggja fyrir lausn var eftirleikurinn einfaldur.

„Stundum þurfa menn bara aðeins að fá að anda. Ég gaf þeim aðeins tíma og leyfði málinu aðeins að róast. Ég er auðvitað búinn að vera í sambandi við þá mjög lengi og þá fann ég það eftir samtal við þá báða að þeir vildu báðir leysa þetta og elska báðir að spila fyrir íslenska landsliðið,“

„Þegar ég fann það að viljinn var beggja megin að leysa þetta þá var það í raun og veru ekkert mjög flókið,“ segir Gunnar.

Ísland mætir Ísrael ytra þann 27. apríl og Eistlandi hér heima þremur dögum síðar. Vinnist leikirnir tveir fer Ísland á EM í efsta styrkleikaflokki.


Tengdar fréttir

„Alltaf meira en til í að spila fyrir íslenska landsliðið“

„Ef að kallið kemur þá segi ég já, hundrað prósent,“ segir Kristján Örn Kristjánsson aðspurður hvort að hann gefi kost á sér í íslenska landsliðið í lok apríl þegar liðið lýkur undankeppni EM með tveimur leikjum. Hann missti af síðustu landsleikjum vegna andlegra veikinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×