Innlent

Ís­lendingur dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi í Flórída: „Ég vildi ekki gera þetta“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Þann 7. október síðastliðinn komst kviðdómur í málinu að þeirri niðurstöðu að Stefán væri sekur um morð af annarri gráðu. Þann 6. mars síðastliðinn dæmdi dómari í málinu Stefán í lífstíðarfangelsi.
Þann 7. október síðastliðinn komst kviðdómur í málinu að þeirri niðurstöðu að Stefán væri sekur um morð af annarri gráðu. Þann 6. mars síðastliðinn dæmdi dómari í málinu Stefán í lífstíðarfangelsi. Escambia County Jail/WKRG News

31 árs íslenskur karlmaður, Stefán Gíslason, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í Pensacola í Flórída, fyrir að hafa orðið karlmanni að bana árið 2020. Dómur var kveðinn upp í Escambia Circuit Court í Pensacola þann 6. mars síðastliðinn.

Það var í apríl 2020 sem greint var frá því að 28 ára gamall Íslendingur hefði verið handtekinn í Pensacola í Flórída, grunaður um að hafa skotið mann til bana. Fram kom að hinn látni, hinn 32 ára gamli Dillon Shanks, hefði verið gestkomandi á heimili Íslendingsins.

Fram kom í fréttum bandarískra fjölmiðla að Íslendingurinn hefði tilkynnt um andlát mannsins um nóttina og sagt að um sjálfsvíg væri að ræða. Hins vegar hefðu tvö vitni gefið sig fram og var framburður þeirra þannig að lögregla taldi ólíklegt að um sjálfsvíg væri að ræða og handtók Íslendinginn.

Með langan sakaferil að baki

Í frétt DV frá 22. apríl 2020 er bakgrunnur Stefáns rakinn. Stefán fæddist á Íslandi árið 1991 en fluttist með foreldrum sínum til Bandaríkjanna aðeins hálfs mánaðar gamall. Hefur hann búið alla ævi í Pensacola í Flórída.

Móðir Stefáns er fimmtug og faðir hans 55 ára og hefur fjölskyldan búið í Pensacola allar götur síðan árið 1991. Faðir Stefáns er hagfræðingur og háskólakennari. Meirihluti stórfjölskyldunnar býr hins vegar á Íslandi.

Fram kom í frétt DV að ættingjar Stefáns hefðu sáralítið viljað láta hafa eftir sér um málið. Það væri hræðilegt fyrir alla í fjölskyldunni og hefði komið öllum í opna skjöldu.

Stefán á nokkurn sakaferil að baki. Hann var handtekinn vegna líkamsárásar í nóvember árið 2018. Þá hefur hann verið ákærður fyrir ölvunarakstur, vopnaburð og fyrir að flýja af vettvangi umferðaróhapps. Í byrjun október 2019 var Stefán handtekinn vegna skilorðsrofs.

Bar fyrir sig sjálfsvörn

Stefán var ákærður fyrir morð af annarri gráðu. Réttarhöld í málinu hófust seint á síðasta ári.

Í opnunarræðu sinni fyrir kviðdómi sagði Matt Gordon, aðstoðarsaksóknari að málið væri „grafalvarlegt.“

„Það snýst um gjörðir sem höfðu grimmilegar afleiðingar; tekið var í gikk skotvopns og lífi manneskju eytt.“

Í opnunarræðu Gordon kom fram að Stefán hefði skotið í hnakkann á Dillon Shanks, á meðan Shanks reyndi að yfirgefa íbúðina í kjölfar rifrildis þeirra á milli.

Tvö vitni voru kölluð fyrir dóminn. Um er að ræða þau Brittany Johnson, fyrrverandi kærustu Stefáns, og karlmaðurinn Michael Marshall. Bæði voru stödd fyrir utan íbúðina þegar þau heyrðu hleypt af byssu. Þau tjáðu lögreglu að þau hefðu séð Stefán halda á skotvopni á meðan hann og Dillon Shanks rifust.

Brast í grát

Lögmenn Stefáns héldu því fram fyrir dómi að um sjálfsvörn hefði verið að ræða. Samkvæmt framburði Stefáns voru hann og Shanks að slást um byssuna þegar skotinu var hleypt af. 

Fram kemur í fréttum bandarískra miðla að Stefán hafi brostið í grát í vitnastúkunni og sagt: „ Ég vildi ekki gera þetta. Mig langaði aldrei að verja mig á þennan hátt."

Þann 7. október í fyrra komst kviðdómur í málinu að þeirri niðurstöðu að Stefán væri sekur um morð af annarri gráðu.

Í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu í Flórída, sem gefin var út þann 7.mars síðastliðinn, kemur fram að sönnunargögn sem lögð voru fram fyrir dómi sýni fram á að Stefán hafi skotið Dillon Shanks. Fram kemur að Stefán hafi upphaflega tjáð lögreglu að Dillon Shanks hafi skotið sig sjálfur, en þegar honum hafi verið bent á staðsetningu skotsársins hafi hann borið fyrir sig að um sjálfsvörn hefði verið að ræða.

Það var svo fyrir rúmum mánuði sem dómari í málinu dæmdi Stefán í lífstíðarfangelsi. Mun hann afplána dóminn í ríkisfangelsi í Flórída. 


Tengdar fréttir

Saka íslenskan karlmann um morð á Flórída

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn og sakaður um morð í Pensacola á Flórída í Bandaríkjunum á mánudag. Maðurinn er sagður hafa skotið gest á heimili hans til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×