Samkvæmt tilkynningu Frigusar telja forsvarsmenn félagsins alvarlega annmarka hafa verið á söluferli Lindarhvols á hlutafé og nauðsamningskröfu í Klakka ehf í október árið 2016. Segir að þetta hafi komið berlega í ljós í aðalmeðferð málsins þegar skýrslutökurnar fóru fram.
„Forsvarsmönnum Frigusar þykir miður að héraðsdómur hafi ekki tekið tillit til sjónarmiða og röksemda félagsins er að þessu lúta. Að mati Frigusar er nauðsynlegt að Landsréttur leysi úr málinu, meðal annars í ljósi mikilvægis þess og fordæmisgildis enda liggur fyrir að stjórn og ráðgjafar Lindarhvols ehf. höfðu með höndum sölu á afar verðmætum ríkiseignum,“ segir í tilkynningunni.
Einnig að enn gæti óskiljanlegrar tregðu hjá forseta Alþingis, stjórnvöldum og ríkisendurskoðanda við að afhenda greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, um starfsemi Lindarhvols.
„Þar kunna að vera upplýsingar sem styrktu málstað Frigusar ehf. fyrir dómi. Vegna alls þessa telja forsvarsmenn félagsins óhjákvæmilegt annað en að fá úrlausn æðra dómsvalds í málinu,“ segja forsvarsmennirnir.
Krefjast 650 milljóna
Frigus krafðist 650 milljón króna í skaðabætur frá Lindarhvoli og íslenska ríkinu. Upphæðin nemur þeim hagnaði sem Frigus hefði notið ef tilboði Kviku banka fyrir hönd Frigusar hefði verið tekið.
Þann 29. september auglýsti Lindarhvoll til sölu hlutafé í Klakka og aðrar eignir. Forsvarsmenn Frigusar telja að upplýsingagjöf í aðdraganda sölunnar hafi verið afar ábótavant og engin leið að átta sig á verðmæti Klakka.
Kvika, BLM fjárfestingar og Ásaflöt buðu í eignirnar en stjórnarmaður BLM var jafn framt forstjóri Klakka og stjórnendur Ásaflatar voru stjórnarmenn í Klakka.
Aðeins munaði 4 milljónum á boðunum. Tilboð Frigusar var 501 milljón króna en BLM 505 milljónir og Ásaflatar 502. Samið var við BLM.