Aftur missti Arsenal niður tveggja marka for­ystu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arsenal komst í 2-0 snemma leiks en það dugði ekki til.
Arsenal komst í 2-0 snemma leiks en það dugði ekki til. Chloe Knott/Getty Images

West Ham United og Arsenal gerðu 2-2 jafntefli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta er annar leikurinn í röð sem Arsenal missir niður tveggja marka forystu en í síðustu umferð gerðu Skytturnar 2-2 jafntefli við Liverpool á Anfield.

Arsenal byrjaði leikinn af miklum krafti og sem Hamrarnir hefðu hreinlega orðið eftir inn í klefa. Gabriel Jesus brautt ísinn strax á 7. mínútu eftir frábært samspil gestanna á hægri vængnum. Það endaði með því að Ben White gaf fyrir markið nánast af endalínunni og Jesus gat ekki annað en skorað verandi einn á auðum sjó á fjær. 

Eitt mark varð fljótlega að tveimur en Martin Ødegaard skoraði á 10. mínútu með frábæru skoti í fyrsta eftir fyrirgjöf Gabriel Martinelli. Brasilíski vængmaðurinn hafði gefið fyrir, boltinn var skallaður frá en barst aftur til Martinelli sem gaf fyrir og norski miðjumaðurinn skoraði þetta líka fína mark. 

Staðan orðin 2-0 Skyttunum í vil og leikurinn svo gott sem búinn, eða hvað?

Eftir þetta róaðist leikurinn og þegar rúmur hálftími var liðinn fengu Hamrarnir vítaspyrnu. Declan Rice hafði þá unnið boltann af Thomas Partey sem var annars hugar og í kjölfarið gerðist Gabriel brotlegur innan vítateigs. 

Mohamed Said Benrahma tók spyrnuna og skoraði af gríðarlegu öryggi. Eftir það voru West Ham betri aðilinn þangað til flautað var til hálfleiks en gestirnir voru þó enn marki yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í upphafi síðari hálfleiks fengu gestirnir vítaspyrnu sem Bukayo Saka tók. Spyrna hans var ævintýralega slök og flaug langt framhjá markinu. Það nýttu Hamrarnir sér en skömmu síðar var Jarrod Bowen búinn að jafna metin og staðan orðin 2-2. 

Þrátt fyrir fín færi á báða bóga eftir það urðu mörkin ekki fleiri og lauk leiknum með 2-2 jafntefli. Arsenal er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með fjögurra stiga forystu á Manchester City sem á þó leik til góða ásamt því að liðin eiga eftir að mætast innbyrðis. West Ham er á sama tíma í 15. sæti, fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira