Íslenski boltinn

Yfir­lýsing fyrir­liða Bestu deild kvenna: „Hörmum það mjög að þetta sé staðan þegar svo stutt er í mót“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Vals.
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Vals. Vísir/Hulda Margrét

Fyrirliðar liða í Bestu deildar kvenna í knattspyrnu hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna undirbúnings og vinnubragða Íslensks Toppfótbolta, ÍTF. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Ítrekað hafa komið upp atvik sem gera lítið úr kvennaknattspyrnu á Íslandi, og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns - þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða,“ segir í yfirlýsingu fyrirliðanna.

Þar segir einnig að harmað sé mjög að þetta sé staðan þegar stutt er í að Íslandsmótið hefjist og að „enn eitt árið halli á kvennaknattspyrnuna á Íslandi.“

Þá segir einnig að leikmenn deildarinnar muni ekki mæta til ÍTF á mánudaginn kemur þar sem planað var að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.

„Við hvetjum alla til þess að mæta á leik Vals og Stjörnunnar á mánudaginn kemur og sýna þannig kvennaknattspyrnunni stuðning,“ segir að endingu.

Í aðdraganda Bestu deildar kvenna hefur undirbúningur og vinnubrögð ÍTF verið í besta falli skammarleg. Ítrekað hafa komið upp atvik sem gera lítið úr kvennaknattspyrnu á Íslandi, og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns - þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða.

Við hörmum það mjög að þetta sé staðan þegar svo stutt er í mót, og að enn eitt árið halli á kvennaknattspyrnuna á Íslandi. Við vonum að ÍTF sjái að sér og fari að sinna báðum deildum, eins og þeirra hlutverk sannarlega er.

Af þessum sökum höfum við tekið þá ákvörðun að leikmenn munu ekki mæta á mánudaginn til ÍTF þar sem áætlað var að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.

Við hvetjum alla til þess að mæta á leik Vals og Stjörnunnar á mánudaginn kemur og sýna þannig kvennaknattspyrnunni stuðning.

Fyrir hönd félaga í Bestu deild kvenna, Fyrirliðar félaga í Bestu deild kvenna

Júlíana Sveinsdóttir, ÍBV

Kristrún Ýr Hólm, Keflavík

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, Þróttur

Anna María Baldursdóttir, Stjarnan

Ásta Eir Árnadóttir, Breiðablik

Bryndís Rut Haraldsdóttir, Tindastóll

Sandra María Jessen, Þór/KA

Elísa Viðarsdóttir, Valur

Unnur Dóra Bergsdóttir, Selfoss

Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir, FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×