Erlent

Rændi banka til að fjár­magna kvik­mynd

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mynd sem náðist af Brown er hann rændi bankann.
Mynd sem náðist af Brown er hann rændi bankann. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Bandarískur karlmaður sem rændi banka síðastliðið sumar til að fjármagna tökur á kvikmynd var dæmdur í tíu ára fangelsi í Flórída-ríki fyrir ránið. Maðurinn náði að hafa á brott með sér rúmlega fjögur þúsund dollara í seðlum úr bankanum en var handtekinn síðar eftir ábendingar til lögreglu.

Nacoe Ray Brown játaði brotið fyrir dómi í janúar síðastliðnum. Brown, sem er 55 ára gamall, hafði sett derhúfu, sólgleraugu og sóttvarnargrímu á sig til að fela andlitið er hann rændi bankann. Brown rétti starfsmanni bankans miða sem á stóð að hann væri með byssu og væri að krefjast penings. Starfsmaðurinn rétti honum í kjölfarið tæplega 4.300 dollara í seðlum, sem gera rúmlega hálfa milljón í íslenskum krónum.

Samkvæmt umfjöllun Insider um málið náði lögreglan að hafa uppi á Brown eftir ábendingu frá vitni sem sá hann fara á bensínstöð og skipta um föt. Fljótlega fann lögreglan Brown á hóteli og handtók hann. Brown var ekki vopnaður á hótelinu og lögreglan fann ekkert skotvopn í tengslum við málið.

Þegar Brown var handtekinn tjáði hann yfirvöldum að hann væri að taka upp kvikmynd í Flórída og að peningurinn væri á þrotum. Hann hafi rænt bankann til að geta klárað kvikmyndina. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Brown rænir banka en hann gerði það þrisvar sinnum árið 2001. Hann var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir þau rán en fékk að fara úr fangelsinu árið 2020 á skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×