Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:
Erfitt að komast inn í senuna
Baldur hefur alla tíð elskað að teikna og vissi ungur hvert hann vildi stefna í lífinu. Hann hefur verið búsettur bæði í San Fransisco og Chicago en er nýlega fluttur heim með fjölskyldu sinni.
„Ég bjó í San Fransisco, fór í listaháskóla þar og var síðan að reyna að komast inn í gallerí og reyna að fá eitthvað að gera. Það gekk ekkert og svo fluttum við til Chicago, en konan mín er þaðan.“

Örlagaríkt tækifæri
Baldur reyndi þá að komast inn í listsenuna í Chicago en segir að það hafi gengið brösuglega um tíma.
„Þangað til að allt í einu kemur einn galleristi sem gefur mér séns að vera með sýningu, eftir að ég var búinn að vera í einhverju harki, og það bara einhvern veginn sló í gegn, þó það hljómi fáránlega.
Allt í einu var bara þvílíkur áhugi í Asíu, Evrópu, Bandaríkjunum og það var eins og að á einni nóttu vildu allir eignast verk.
Þetta var svona að fara úr því að vera einn í kjallara heima hjá sér að mála í einhverju ströggli og yfir í að geta allt í einu farið að lifa á því að gera myndlist, sem virðist bara hafa gerst á einni nóttu.“
Skortir allt snobb
Aðspurður hvernig hann sjálfur hafi breyst í kjölfar þess að ferilinn fór á flug segir Baldur:
„Ég held að ég hafi ekkert breyst. Ég er ennþá sami vitleysingurinn, hálfpartinn hlæ stundum af þessu og er bara að einbeita mér að því að mála myndir. Það fer oft í taugarnar á fólki sem vill vinna með manni úti að maður sé ekki að taka einhverjum gylliboðum og vilji bara vera einn með sjálfum sér að mála. Það vantar mjög mikið snobbið í mig.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.