Íslenski boltinn

ÍTF hefur boðað for­svars­menn fé­laga í Bestu deild kvenna á fund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF.
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF. VÍSIR/VILHELM

Hagsmunasamtökin Íslenskur Toppfótbolti, ÍTF, hefur gefið út tilkynningu eftir umræðu undanfarna daga. Þar segir að ÍTF hafi boðið forsvarsmenn félaga í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á fund til að ræða málin.

ÍTF hefur staðið í ströngu að undanförnu en um er að ræða hagsmunasamtök fyrir Bestu deildir karla og kvenna sem og Lengjudeildir karla og kvenna. Mikil óánægja var með auglýsingu fyrir Bestu deildirnar þar sem hallaði á konur í auglýsingunni.

Þá ákváðu fyrirliðar liða í Bestu deildinni að leikmenn liðanna myndu ekki mæta á fund með ÍTF á morgun, mánudag, þar sem taka átti upp markaðsefni fyrir deildina. Var til að mynda bent á að þetta væri á sama tíma og leikur Vals og Stjörnunnar í Meistarakeppni KSÍ færi fram.

ÍTF hefur nú sent frá tilkynningu vegna yfirlýsinga fyrirliða Bestu deildar kvenna. Þar segir að upptökurnar séu mikilvægur liður í gerð markaðsefnis fyrir komandi tímabil.

„Umrætt fundarboð var sent á forsvarsmenn aðildarfélaga á morgni föstudags. Fram kom að tímasetningin hentaði ekki öllum félögum enda upptökur fyrir mistök boðaðar ofan í mikilvægan leik Vals og Stjörnunnar. Við þessum árekstri var hins vegar brugðist strax með því að bjóða upp á annan tíma á öðrum degi,“ segir í tilkynningu ÍTF.

ÍTF hefur nú boðað forsvarsmenn félaga deildarinnar á fund á morgun til að ræða málefni er varða deildina og komandi keppnistímabil.

„Það er okkar von að hentugur tími finnist sem allra fyrst svo að klára megi upptökur og sátt náist um að vinna uppbyggilega saman að árangursríku og skemmtilegu knattspyrnutímabili.“

Hér að neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni.

Vegna yfirlýsingar fyrirliða í Bestu deild kvenna vill ÍTF koma eftirfarandi á framfæri. Upptökur sem voru boðaðar á mánudaginn kl 18:00 – 20:00 eru mikilvægur liður í gerð markaðsefnis fyrir komandi tímabil í deildinni. 

Umrætt fundarboð var sent á forsvarsmenn aðildarfélaga á morgni föstudags. Fram kom að tímasetningin hentaði ekki öllum félögum enda upptökur fyrir mistök boðaðar ofan í mikilvægan leik Vals og Stjörnunnar. Við þessum árekstri var hins vegar brugðist strax með því að bjóða upp á annan tíma á öðrum degi. 

ÍTF hefur boðað forsvarsmenn félaga í Bestu deild kvenna á fund á morgun, mánudag til að ræða þau málefni sem varða deildina og komandi keppnistímabil. 

Það er okkar von að hentugur tími finnist sem allra fyrst svo að klára megi upptökur og sátt náist um að vinna uppbyggilega saman að árangursríku og skemmtilegu knattspyrnutímabili. 

Virðingarfyllst, ÍTF


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×