Enski boltinn

Ekki vandamál að Boehly komi inn í klefa

Valur Páll Eiríksson skrifar
Frank Lampard hefur fátt út á Boehly að setja.
Frank Lampard hefur fátt út á Boehly að setja. EPA-EFE/Chema Moya

Frank Lampard, bráðabirgðastjóri Chelsea á Englandi, sér ekkert að því að eigandi félagsins, Todd Boehly, komi inn í búningsklefa liðsins.

Chelsea hefur ekki átt sjö dagana sæla frá því að Boehly festi kaup á félaginu þrátt fyrir gríðarmikil fjárútlát eigandans. Graham Potter var sagt upp störfum nýlega og Lampard ráðinn til loka yfirstandandi leiktíðar.

Eigandinn hefur sætt gagnrýni fyrir að þekkja illa til í boltanum og misgáfuleg ummæli sem hann hefur látið falla. Þá hefur ekki tíðkast að eigendur láti mikið sjá sig í búningsklefa liðs síns en Lampard sér ekkert að því að Boehly geri það.

Boehly fór inn í klefa Chelsea eftir tap helgarinnar fyrir Brighton og lét leikmenn heyra það.

„Það truflar mig ekki að Boehly komi inn í klefann. Áður gagnrýndu menn fyrri eiganda okkar fyrir að koma ekki á leiki liðsins, sem var ekki alltaf rétt,“

„En þegar eigandi leggur allt í verkefnið eru það hans forréttindi að haga hlutum eins og þeir vilja, það sýnir ástríðu hans,“ segir Lampard.

Chelsea tapaði 2-1 á heimavelli fyrir Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Liðið mætir Real Madrid í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stamford Bridge í kvöld og þarf að vinna upp 2-0 tap í Madríd í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×