Sú umræða er bæði gömul og ný, hvort stafræn tækni og snjallsímar séu að ná óeðlilegum heljartökum á ungdómi landsins. Tryggvi Hjaltason, sérfræðingur hjá CCP, skrifaði á dögunum færslu á Facebook sem vakti nokkra athygli, en þar gagnrýndi hann harðlega hvernig Íslendingar hafa haldið á málum þegar kemur að því að hleypa snjallsímum svo greiðlega inn í líf barnanna.
Spurður út í snjalltækjaþróunina hjá ungu fólki segir Hilmar Veigar forstjóri að það skipti máli að gera skýran greinarmun á því þegar krakkarnir eru að leika sér í tölvuleikjum og því þegar þeir liggja á samfélagsmiðlum sem mata þá af efni. Minecraft, sem dæmi, geti verið heilnæm upplifun fyrir börn þar sem unnið er í sameiningu að tilteknu markmiði, en samfélagsmiðlar hafi snúist upp í andhverfu sína.
„Leikur í grunninn til er aðferð til að læra. Það er bara aðferð eiginlega allra spendýra til að læra. Þannig að ef krakkarnir eru að leika sér í tölvunni eða símanum, sérstaklega með öðrum, þá myndi ég horfa öðruvísi á það en ef þau eru bara að taka við einhvers konar mötun,“ segir Hilmar.
„Þar má horfa á þessa samfélagsmiðla, sem eru að einhverju leyti orðnir andsamfélagsmiðlar. Þetta voru aðferð til að eiga samskipti við fólk, en eru núna orðin aðferð til að neyta efnis. Þar ert þú ekki að taka neinar ákvarðanir, heldur er efnið matað ofan í þig af gervigreind sem hefur lært á þig og veit hvernig á að halda þér í transi við símann.
Þú ert hvorki að taka ákvarðanir, né læra mikið, né leika þér með öðrum. Þannig að ég myndi horfa á það hvað er að gerast bak við skjáinn.“