Gervigreindar-Embla er nýjung í forritinu Emblu sem gerir notanda kleift að eiga samræður við risamállíkanið GPT-4 á íslensku. Embla er smáforrit á vegum hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar sem hefur unnið að lausnum í máltækni og gervigreind á undanförnum árum.
Undanfarna mánuði hefur Miðeind verið í samstarfi við OpenAI um að sérþjálfa nýjasta risamállíkan OpenAI, GPT-4, fyrir íslensku. Afrakstur þess samstarfs má sjá á stórbættri íslenskukunnáttu risamállíkansins GPT-4 og vænta má enn betri niðurstaðna á næstu mánuðum.

Á morgun stendur Miðeind síðan fyrir kynningu á gervigreindar-Emblu á opnu húsi í Eddu, Húsi íslenskunnar, að Arngrímsgötu 5.
Í kjölfarið verður notendum Emblu boðið að spjalla ókeypis við gervigreindina GPT-4 á íslensku. Virknin verður opin til prófunar í eina viku og verður hverjum notanda Emblu boðið upp á fimmtán fyrirspurnir á tímabilinu.