Erlent

Baldwin laus allra mála

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Leikarinn samdi við fjölskyldu Hutchins í október.
Leikarinn samdi við fjölskyldu Hutchins í október. Getty/Coppola

Leikarinn Alec Baldwin verður ekki ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Baldwin skaut kvikmyndatökustjórann Halyna Hutchins til bana við tökur á myndinni Rust árið 2021.

Leikarinn var ákærður fyrir manndráp af gáleysi í janúar á þessu ári. í ákærunni var honum gefið að sök að hafa brotið fjölda laga þegar hann miðaði byssu í átt að Hutchins. Hann hafi meðal annars sleppt því að fylgjast með á námskeiði um hvernig ætti að meðhöndla skotvopn. Þá hafi hann ekki séð til þess að „vopnavörður“ hafi afhent honum skotvopnið heldur fékk hann það frá aðstoðarleikstjóra myndarinnar.

Lögmenn Baldwins segja að yfirvöld hafi nú ákveðið að falla frá ákærunni en réttarhöld áttu að hefjast eftir aðeins tvær vikur: „Við erum sáttir með þessa niðurstöðu og hvetjum til þess að málið, þetta hryllilega slys, verði rannsakað til fulls,“ sagði Luke Nikas einn lögmanna leikarans.

Saksóknarinn sem sá um málið sagði af sér í mars, eftir að lögmenn Baldwins héldu því fram að skipun hennar í embætti sérstakts saksóknara færi gegn stjórnarskrá ríkisins, þar sem Andrea Reeb, umræddur saksóknari, sæti einnig á þingi í Nýju Mexíkó. Þá höfðu saksóknarar einnig lækkað refsirammann sem Baldwin stóð frammi fyrir í ljósi þess að hann hafði upphaflega verið ákærður fyrir brot á lögum sem ekki voru í gildi þegar hann skaut Hutchins til bana.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Baldwin hafi samið við fjölskyldu Hutchins í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×