Fótbolti

Arsenal þurfi nánast kraftaverk til að vinna City

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arsenal þurfti að sætta sig við jafntefli þriðja leikinn í röð í gær.
Arsenal þurfti að sætta sig við jafntefli þriðja leikinn í röð í gær. Julian Finney/Getty Images

Eftir að hafa tapað sex stigum í seinustu þremur leikjum hefur Arsenal, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, galopnað titilbaráttuna. Ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City eru nú aðeins fjórum stigum á eftir Lundúnaliðinu, en liðin mætast næstkomandi miðvikudag í leik sem gæti farið langleiðina með að tryggja öðru hvoru liðinu Englandsmeistaratitilinn.

Arsenal þurfti að sætta sig við 3-3 jafntefli er liðið tók á móti botnliði deildarinnar, Southampton, í gær. Þetta var þriðja jafntefli liðsins í röð og Arsenal er nú með aðeins fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þegar liðið á sex leiki eftir, en City, sem situr í öðru sæti deildarinnar, á tvo leiki til góða.

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, hefur greinilega áhyggjur af stöðunni hjá Arsenal þessa dagana. Eftir leik liðsins gegn Southampton í gær sagði hann meðal annars að liðið þyrfti nánast kraftaverk til að vinna City á miðvikudaginn og vera þannig enn með örlögin í sínum höndum.

„Nú þurfa þeir að fara til Manchester og sækja þrjú stig gegn City til að vinna deildina held ég,“ sagði Carragher.

„Þeir þurfa að gera eitthvað kraftaverki líkast núna. Þeir þurfa að gera eitthvað einstakt í sínum leik.“

„Ef leikurinn á miðvikudaginn verður í góðu jafnvægi þá þarf Arsenal að passa sig að gera ekki eitthvað heimskulegt til að reyna að vinna leikinn. Ef þeir tapa á miðvikudaginn þá er þetta búið og City vinnur titilinn,“ sagði Carragher að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×