Fótbolti

Annar sigur Fulham í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Wilson kom Fulham á bragðið í dag.
Harry Wilson kom Fulham á bragðið í dag. Clive Rose/Getty Images

Eftir fimm tapleiki í röð í öllum keppnum vann Fulham sinn annan sigur í röð er liðið vann 2-1 sigur gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Heimamenn í Fulham voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins, en þrátt fyrir það tókst þeim ekki að brjóta ísinn í fyrri hálfleik.

Það tókst þó loks á 58. mínútu þegar Harry Wilson þrumaði boltanum í slána og inn eftir að Illan Meslier, markvörður Fulham hafði slegið hann út í teig.

Andreas Pereira tvöfaldaði svo forystu Fulham á 72. mínútu eftir fyrirgjöf frá Willian og róðurinn því orðinn þungur fyrir gestina.

Þeim tókst þó að minnka muninn á 79. mínútu þegar Palhinha varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir darraðardans í teignum, en nær komust gestirnir ekki og niðurstaðan varð 2-1 sigur Fulham.

Fulham situr nú í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig eftir 31 leik, en Leeds situr í sextánda sæti með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×