Enski boltinn

Chelsea með auga­stað á Neymar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar virðist vera á leið frá París.
Neymar virðist vera á leið frá París. Christian Liewig/Getty Images

Eins ótrúlegt og það hljómar þá gæti enska knattspyrnufélagið Chelsea reynt að festa kaup á Brasilíumanninum Neymar í sumar. 

Hinn 31 árs gamli Neymer er leikmaður París Saint-Germain í dag. Samningur hans í París gildir til sumarsins 2025 en vitað er að félagið vill losna við Neymar af launaskrá í von um að verða minna „bling“ og líklegra til að verða sigursælt í Evrópu.

Að sama skapi virðist PSG ekki ætla að standa í vegi fyrir að Lionel Messi snúi heim til Katalóníu. Ef eitthvað er virðist PSG líklegra til að borga flug undir Argentínumanninn.

Neymar hefur áður orðaður við Chelsea en það var áður en félagið keypti alla leikmenn Evrópu með púls í janúarglugganum. Það er þó vitað til að það verður tekið til í leikmannahópi Chelsea í sumar og má reikna með að fjöldi leikmanna yfirgefi félagið.

Bandaríkjamaðurinn Todd Boehly, eigandi Chelsea, vill eflaust fá eitt stórt nafn inn til að sýna stuðningsfólki félagsins að Chelsea stefni aftur í fremstu röð. Sem stendur virðist það nafn vera Neymar.

Brasilíumaðurinn er meiddur um þessar mundir og verður frá það sem eftir lifir tímabils. Hann átti þó nokkuð gott tímabil fram að því. Skoraði hann 13 mörk og lagði upp önnur 11 í aðeins 20 leikjum í frönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Í Meistaradeild Evrópu skoraði hann 2 mörk og lagði upp 3 til viðbótar í aðeins 6 leikjum.

Chelsea er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 39 stig að loknum 31 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×