Árið 2020 var hlutfallið aðeins 14,3 prósent. Þá voru 10.418 mál felld niður og 177 kærum vísað frá. Ári seinna hafði hlutfallið hækkað í 18 prósent. Hins vegar var hlutfallið 22,3 prósent árið 2018.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata.
Túristar sem keyra hratt
Langflest málin sem verða að engu eru umferðarlagabrot, einkum umferðarlagabrot erlendra ferðamanna sem varða hraðakstur og ekki hefur tekist að fullnusta. Árið 2022 voru 10.507 umferðarlagabrot felld niður, eða rúmlega 61 prósent allra brota.
Þar á eftir koma auðgunarbrot, svo sem þjófnaðir, 3.217 talsins. Þá 1.403 brot er varða fjárréttindi, 1.057 sérrefsilagabrot svo sem fíkniefna og vopnalagabrot, 641 brot er falla undir flokkinn manndráp og líkamsmeiðingar, 347 ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, 40 skjalafalsmál, 34 brot er varða almannahættu og 19 kynferðisbrot.
Lögregla vísar frá kæru ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn. „Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað,“ segir í svarinu. Sé mál fellt niður er skylt að tilkynna kærenda það og getur hann þá kært ákvörðunina um niðurfellingu.