Körfubolti

Þurfa að færa Janet Jackson tónleika út af velgengni Hawks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Janet Jackson þarf nú að taka tvö kvöld í röð í heimahöll Atlanta Hawks.
Janet Jackson þarf nú að taka tvö kvöld í röð í heimahöll Atlanta Hawks. Getty/Richard Shotwell

Atlanta Hawks hélt sér á lífi í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt með því að vinna frábæran endurkomusigur í Boston.

Atlanta var í raun nánast búið að tapa leiknum en vann upp þrettán stiga forskot Boston Celtics í fjórða leikhluta og tryggði sér síðan 119-117 sigur á magnaðri þriggja stiga körfu frá Trae Young langt fyrir utan línuna.

Trae Young endaði leikinn með 38 stig og 13 stoðsendingar. Einhverjir voru að tala um að hann væri ofmetinn leikmaður en hann svaraði því inn á vellinum í nótt. Young skoraði meðal annars fjórtán síðustu stig Hawks manna í leiknum og hefur skorað sextíu stig í fjórða leikhluta í einvíginu.

Næsti leikur er því í Atlanta á fimmtudagskvöldið en það lítur út fyrir að forráðamenn State Farm Arena, heimahallar Atlanta Hawks liðsins, hafi ekki búist við þessari velgengi Hawks liðsins.

Sama kvöld áttu nefnilega að fara fram Janet Jackson tónleikar í höllinni. Janet er á Together Again tónleikaferð um Bandaríkin og tveir af tónleikunum fara fram í Atlanta. Þeir áttu að fara fram á fimmtudegi og laugardegi en hin 56 ára gamla Janet þarf nú að taka tvö kvöld í röð.

Ákveðið var nefnilega að að færa Janet Jackson tónleikana aftur um eitt kvöld eða yfir á föstudagskvöldið.

Miðarnir gilda áfram og þeir sem komast ekki þá geta fengið endurgreitt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×