Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur sett drög að þessari reglugerð í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar þar sem hægt er að koma á framfæri athugasemdum. Ef reglugerðardrögin verða gefin út óbreytt gildir hún eingöngu fyrir þá útlendinga sem dregið hafa umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka eða verið synjað um hana af stjórnvöldum. Útlendingar sem koma frá ríkjum sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki eiga þó ekki rétt á enduraðlögunarstyrk.

Upphæðir styrkjanna eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða fullorðinn einstakling, barn eða fylgdarlaust barn. Styrkirnir eru þrenns konar. Í fyrsta lagi ferðastyrkur, í öðru lagi enduraðlögunarstyrkur og síðan viðbótarstyrkur.
Ferðastyrkurinn getur verið á bilinu eitt til tvö hundruð evrur, enduraðlögunarstyrkurinn á bilinu eitt þúsund til þrjú þúsund evrur og viðbótarstyrkurinn ýmist 500 eða þúsund evrur ef sótt er um hann áður en frestur til heimfarar rennur út.

Dómsmálaráðherra segir reglugerðina setta til að samræma reglurnar hér því sem þekktist í Evrópulöndum. Hún væri einnig nauðsynleg í framhaldi nýrra útlendingalaga sem geri ráð fyrir að þjónusta við hælisleitendur falli niður eftir 30 daga frá synjun um vernd.
„Þarna erum við að búa til hvata til að fólk fari í sjálfviljuga heimför til síns heimalands. Það er mikill ávinningur fyrir alla aðila í þeim efnum. Bæði fyrir náttúrlega einstaklingana sem hér eiga undir en ekki síður fyrir okkur og ríkissjóð. Það er dýrt að vera í þvinguðum brottförum,“ segir Jón. En alla jafna fylgja tveir lögregluþjónar þeim sem fluttur er úr landi.
Styrkirnir væru til standa undir kostnaði við ferðlög og enduraðlögun í viðkomandi heimaríki. Til að standa til dæmis undir húsaleigu, námi, atvinnu eða öðrum verkefnum ísamstarfi við alþjóðastofnanir.
„Það er alveg ljóst að það er mjög kostnaðarsamt að vera með það sem við köllum þvingaðar brottfarir. Brottfarir í lögreglufylgd. Það er einnig dýrt ef fólk er að dvelja hér mikið lengur en lög gera ráð fyrir. Þá teljum við að það sé gagnkvæmur ávinningur af þessu. Fyrir þá einstaklinga sem hér eiga undir og við erum að létta undir með þeim að koma sér fyrir í sínu heimalandi að nýju. En að sama skapi teljum við ávinning af þessu fyrir ríkissjóð,“ segir Jón Gunnarsson. Reikna megi með að reglugerðin taki gildi innan nokkurra vikna þegar búið verði að fara yfir umsagnir.