Íslenski boltinn

Pálmi Rafn heim á Húsa­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pálmi Rafn í einum af sínum fjölmörgu leikjum með KR.
Pálmi Rafn í einum af sínum fjölmörgu leikjum með KR. Vísir/Vilhelm

Pálmi Rafn Pálmason, íþróttastjóri KR, hefur fengið félagaskipti yfir í uppeldisfélag sitt Völsung sem leikur í 2. deild karla í knattspyrnu í sumar.

Pálmi Rafn lagði skóna á hilluna síðasta haust eftir átta tímabil með KR. Var hann til að mynda stór ástæða þess að KR varð Íslandsmeistari árið 2019. Þessi 38 ára gamli miðjumaður lét skóna þó ekki safna miklu ryki upp í hillu og hefur nú ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélaginu í sumar.

Spili hann með liðinu í sumar verður það hans fyrsti leikur í treyju félagsins í meira en tvo áratugi en hann lék síðast með liðinu, í 2. deild, árið 2002. Þaðan fór Pálmi Rafn til KA og svo Vals áður en hélt til Stabæk í Noregi.

Varð hann Noregsmeistari með liðinu áður en hann færði sig yfir til Lilleström. Alls var hann tæp sjö ár í Noregi. Hann samdi við KR 2015 og lék með liðinu allt til loka síðustu leiktíðar. Þá tók hann við starfi íþróttastjóra hjá félaginu í janúar á síðasta ári.

Pálmi Rafn er með 431 leik skráðan á KSÍ og hefur skorað í þeim 108 mörk. Þá spilaði hann á sínum tíma 18 A-landsleiki. Ljóst er að um hvalreka er að ræða fyrir Völsung þó það sé ekki víst hversu mikið Pálmi Rafn muni spila.

Segja má að hann sé að feta í fótspor Baldurs Sigurðssonar, annars leikmanns sem hóf ferilinn á Húsavík, en Baldur samdi við uppeldisfélagið fyrir síðasta tímabil eftir farsælan feril hér á landi sem og í atvinnumennsku. Lék Baldur 17 leiki þegar Völsungur endaði í 4. sæti 2. deildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×