Enski boltinn

Stríddi pabba sínum í beinni útsendingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaun Wright-Phillips og Ian Wright léttir á því.
Shaun Wright-Phillips og Ian Wright léttir á því. getty/Sean Dempsey

Shaun Wright-Phillips gat ekki stillt sig um að skjóta á pabba sinn, Ian Wright, á meðan toppslag Manchester City og Arsenal stóð.

City rúllaði yfir Arsenal, 4-1, í leiknum á Etihad í gær. City er því komið í bílstjórasætið í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Meistararnir eru tveimur stigum á eftir Skyttunum og eiga tvo leiki til góða.

Upplitið var ólíkt á Wright-feðgunum á meðan leik stóð. Wright var í öngum sínum yfir stöðunni á meðan Wright-Phillips var hinn kátasti. Og hann nýtti tækifærið og stríddi pabba sínum aðeins á meðan leiknum stóð.

„Hæ, hvað segirðu? Bara kanna stöðuna ... vonandi er allt í lagi pabbi,“ skrifaði Wright-Phillips á Twitter, eflaust brosandi út að eyrum.

Wright var hins vegar langt frá því að vera brosandi út að eyrum enda var sá hans lið ekki til sólar í leiknum.

„Hann er svo pirrandi!“ sagði Wright í Match of the Day á BBC í gær. „Ég kenndi stráknum að pissa. Hann nær samt ekki enn á klósettið.“

Félagar Wrights í Match of the Day, þeir Gary Lineker og Alan Shearer, skemmtu sér konunglega yfir þessari litlu rimmu feðganna sem tengjast liðunum sem áttust við á Etihad sterkum böndum.

Wright er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Arsenal enda næstmarkahæsti leikmaður í sögu félagsins. Wright-Phillips spilaði svo tvisvar sinnum með City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×