Ástæðan er í stórum dráttum sú að ekki hefur náðst samstaða um málið á þinginu og ólík sjónarmið eru uppi. Málið er nú enn og áfram til umræðu í starfshópi.
Alvarlegt ástand meðal ungmenna vegna ópíðóðafaraldurs og dauðsföllum ungmenna sem þeirra efna hafa neytt hefur verið mjög til umfjöllunar að undanförnu.
„Þetta er hins vegar eilítið snúið“
Málið var rætt á þingi í dag í fyrirspurnartíma og var Willum Þór til svara. Einn þeirra sem beindi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. Hann notaði tækifærið, en Miðflokkurinn hefur verið afar andsnúinn því að breytt verði um stefnu í fíknefnamálum og spurði ráðherra hreint út:
„Mun hæstvirtur ráðherra halda sig við lögleiðingu fíkniefna eða afglæpavæðingu, eins og það er kallað í fegrunarskyni, við þessar aðstæður? Óhjákvæmilega mun það leiða til aukins aðgengis, aukins sýnileika fíkniefna, lægri þröskulda, minni hindrana á neyslu slíkra efna. Getur hæstvirtur ráðherra staðfest það núna við þingið að horfið verði frá þeim áformum?“
Svör Willum Þórs voru ekki eins kvitt og klár og spurning fyrirspyrjanda gaf ef til vill tilefni til. Fram kom að hann hafi sett frumvarp sitt á ís. Hann þakkaði Sigmundi Davíð fyrir að ræða þennan „tiltekna þátt sem við höfum kallað afglæpavæðingu og snýr að því að við séum raunverulega — og hugmyndafræðin í því er að mínu viti góð, svo ég segi það hreint út — að þjónusta veikt fólk en refsum því ekki. Þetta er hins vegar eilítið snúið,“ sagði Willum Þór.
Málið rætt fram og til baka í starfshópi
Ráðherra rifjaði upp að þingheimur hafi rætt þetta mál og ólík sjónarmið.
„Því að það á sér fjölmarga anga eins og háttvirtur þingmaður þekkir og veit og kom meðal annars inn á hér, og það hefur ekki náðst sátt um þetta í þinginu. Ég beið því með að koma með frumvarpið inn í þingið eins og upphaflega stóð til, af því að þetta frumvarp lá fyrir, og stofnaði starfshóp með öllum aðilum og notendum.“
Willum greindi frá því að í þeim hópi, sem hefur fjallað um þetta á tíu fundum, hafi þessi ólíku sjónarmið eins og hér á þingi og það hefur ekki náðst sátt um það.
„Til að mynda hvernig skilgreining slíkra neysluskammta gæti verið og aðrar afleiðingar af því að breyta lögum í þá átt. Hins vegar hefur það birst í gegnum fundina með þessum fjölmörgu aðilum sem þekkja vel til málaflokksins, og það hefur verið þróunin erlendis, að fara bara í að horfa á skaðaminnkun í heild sinni. Þannig að ég er að taka þennan hóp áfram.“