Meistararnir komnir á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester City er mætt aftur á toppinn.
Manchester City er mætt aftur á toppinn. Marc Atkins/Getty Images

Það var enginn Kevin de Bruyne í byrjunarliði Man City í dag. Í hans stað var heimsmeistarinn Julián Álvarez með Erling Braut Håland í framlínunni. Sú ákvörðun hjá Pep Guardiola átti eftir að borga sig.

Það tók norska undrið ekki langan tíma að koma gestunum yfir en hann skoraði úr vítaspyrnu strax á þriðju mínútu leiksins. Tim Ream, miðvörður Fulham, gerðist brotlegur innan vítateigs og það nýtti Håland sér. Á einhvern undraverðan hátt jöfnuðu heimamenn metin án þess þó varla að hafa skapað sér færi þegar aðeins stundarfjórðungur var liðinn.

Harry Wilson skallaði boltann á Carlos Vinícius sem skoraði og staðan orðin 1-1. Þegar 36 mínútur voru á klukkunni kom Álvarez gestunum yfir á nýjan leik. Lét Argentínumaðurinn vaða af löngu færi og söng boltinn í markvinklinum vinstra megin. Staðan 2-1 Man City í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og fór Man City með sigur af hólmi, lokatölur á Craven Cottage 1-2 meisturunum í vil.

Sigurinn lyftir Man City upp fyrir Arsenal og á topp ensku úrvalsdeildarinnar. Meistararnir eru með 76 stig eftir 32 leiki á meðan Arsenal er með 75 stig í 2. sætinu hafandi leikið einum leik meira.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira