Enski boltinn

Stefnir í að Man United verði dýrasta í­þrótta­fé­lag heims

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Manchester United fagna sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Leikmenn Manchester United fagna sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar. Michael Regan/Getty Images

Allt bendir til þess að heimsmet verði sett þegar Glazer-fjölskyldan loks selur Manchester United.

Sky Sports greinir frá því að Sheikh Jassim frá Katar og Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe séu búnir að leggja fram þriðja tilboð sitt í enska knattspyrnufélagið Manchester United. Miðað við verðið sem nefnt er í frétt Sky Sports stefnir í að Man United verði dýrasta íþróttafélag allra tíma.

Sheikh Jassim er talinn hafa boðið fimm milljarða punda sem er þó heilum milljarði minna en það sem Glazer-fjölskyldan vill fá fyrir félagið. Tilboð hans segir að Erik Ten Hag muni fá fjármagn til að versla leikmenn sem og að það sé nægur peningur afgangs til að hægt sé að dytta að bæði Old Trafford, heimavelli félagsins, og Carrington-æfingasvæðinu.

Tilboð Ratcliffe er ekki jafn glæsilegt en hann virðist aðeins ætla að kaupa meirihluta hlutabréfa eða rúmlega 50 prósent. Glazer-fjölskyldan myndi halda 20 prósent hlutabréfa og því enn hafa töluverð áhrif innan félagsins.

Samkvæmt Kaveh Solhekol hjá Sky Sports telur Sheikh Jassim að hann sé með langbesta tilboðið. Jassim muni eiga 100 prósent hlutabréfa, ætli að gera félagið skuldlaust sem og að leggja gríðarlegt fjármagn í innviði þess.

„Gera hluti líkt og þá sem Manchester City hefur gert í Manchester,“ segir um tilboð Jassim.

Talið er að Glazer-fjölskyldan taki ákvörðun eftir helgi hvort tilboðið hún samþykki eða hvort hún fari fram á fjórða tilboð frá báðum aðilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×