Fótbolti

Juventus bjargaði stigi og batt enda á taphrinuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arkadiusz Milik skoraði jöfnunarmark Juventus.
Arkadiusz Milik skoraði jöfnunarmark Juventus. Emmanuele Ciancaglini/Ciancaphoto Studio/Getty Images

Arkadiusz Milik var bæði skúrkur og hetja í liði Juventus er liðið gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Bologna í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Riccardo Orsolini kom heimamönnum í Bologna yfir strax á tíundu mínútu með marki af vítapunktinum áður en Milik fékk tækifæri til að jafna metin af vítapunktinum á hinum enda vallarins tuttugu mínútum síðar.

Lukasz Skorupski í marki Bologna sá hins vegar við honum og varði vítið og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Áðurnefndur Milik bætti þó upp fyrir vítaklúðrið í síðari hálfleik þegar hann jafnaði metin fyrir Juventus eftir rétt rúmlega klukkutíma leik og þar við sat.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og liðin skiptu stigunum á milli sín. Juventus batt þar með enda á þriggja leikja taphrinu og liðið er nú með 60 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir 32 leiki, 15 stigum meira en Bologna sem situr í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×