Fótbolti

„Við getum enn orðið Englandsmeistarar“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta er ekki búinn að gefast upp í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.
Mikel Arteta er ekki búinn að gefast upp í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur enn trú á því að sínir menn geti orðið Englandsmeistarar á tímabilinu.

Arsenal hefur vermt toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar nánast allt tímabilið, en eftir tap gegn ríkjandi Englandsmeisturum Manchester City í síðustu viku og sigur City gegn Fulham í gær féll Arsenal niður í annað sæti.

Arteta og lærisveinar hans eru nú einu stigi á eftir City sem á sex leiki eftir á tímabilinu á meðan Arsenal á aðeins fimm leiki eftir. Það er því ljóst að liðsmenn Arsenal þurfa að treysta á það að City tapi stigum í að minnsta kosti tveimur leikjum til að liðið geti endurheimt toppsætið og tryggt sér sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 19 ár.

„Við höfum nú þegar afrekað eitthvað sem er mjög erfitt að afreka,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í dag.

„Við getum enn orðið Englandsmeistarar af því að það eru fimm leikir eftir og það er mikið sem getur gerst á þeim tíma.“

„Nú þurfum við að gleyma því sem gerðist í síðustu viku, læra af því og einbeita okkur að næsta leik sem er Lundúnaslagur á heimavelli. Það er þar sem við getum bætt upp fyrir þetta,“ bætti Arteta við.

Arsenal tekur á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld og getur liðið með sigri endurheimt toppsæti deildarinnar í það minnsta tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×