Fótbolti

Sú besta sneri aftur þegar Barcelona tryggði sér titilinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Titlinum fagnað.
Titlinum fagnað. Twitter@FCBfemeni

Barcelona tryggði sér sigur í La Liga, spænsku úrvalsdeild kvenna, með þægilegum 3-0 sigri á Huelva. Það sem meira er, Alexia Putellas – besta knattspyrnukona heims, sneri aftur á völlinn eftir margra mánaða fjarveru.

Alexia Putellas hafði ekki spilað með Barcelona á leiktíðinni en hún sleit krossband í hné í aðdraganda Evrópumótsins sem fram fór síðasta sumar. Þó það sé deginum ljósara að Barcelona hafi saknað hennar þá hefur það ekki sést á úrslitum liðsins á leiktíðinni.

Sigurinn á Huelva, þökk sé mörkum Laia Codina, Jana Fernández og Asisat Oshoala, þýddi að liðið hafði unnið alla 26 leiki sína í La Liga, með markatölunni 108-5. Þá er Barcelona komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Það breytir því ekki að gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar Putellas steig inn á völlinn þegar 17 mínútur voru til leiksloka. Barcelona á enn eftir fjóra deildarleiki og ljóst er að stefnan er á að enda með fullt hús stiga annað árið í röð.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort Putellas nái að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu á þeim tíma en þann 3. júní – eftir að leikjum liðsins í deildinni er lokið – mætast Barcelona og Wolfsburg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Eins ótrúlegt og það hljómar þá getur Barcelona ekki endurtekið þrennuna sem liðið vann fyrir tveimur tímabilum þar sem liðinu var sparkað úr spænsku bikarkeppninni eftir að stilla upp ólöglegum leikmanni.

Geyse Ferreira spilaði og skoraði í 9-0 sigri á Osasuna í bikarkeppninni en þar sem hún hafði fengið rautt spjald á síðustu leiktíð þegar hún lék með Madríd CFF hefði hún átt að vera í leikbanni.

Barcelona getur því „aðeins“ unnið tvöfalt á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×