Arsenal kláraði Lundúna­slaginn í fyrri hálf­leik og komst aftur á toppinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Ødegaard skoraði tvö mörk fyrir Arsenal í kvöld.
Martin Ødegaard skoraði tvö mörk fyrir Arsenal í kvöld. Shaun Botterill/Getty Images

Arsenal vann öruggan 3-1 sigur er liðið tók á móti Chelsea í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum lyfti Arsenal sér aftur í toppsæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið.

Eftir fjóra leiki í röð án sigurs þurftu liðsmenn Arsenal að fara að snúa genginu við til að halda titilbaráttunni á lífi. Liðið byrjaði af miklum krafti og Norðmaðurinn Martin Ødegaard kom heimamönnum yfir með glæsilegu marki á 18. mínútu eftir stoðsendingu frá Granit Xhaka.

Það var svo sama uppskrift tæpum stundarfjórðungi síðar þegar Xhaka lagði boltann á Ødegaard og Norðmaðurinn skoraði sitt annað mark í leiknum.

Heimamenn fóru svo langleiðina með að gera út um leikinn á 34. mínútu þegar Gabriel Jesus breytti stöðunni í 3-0 og þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningshebergja.

Gestunum tókst að minnka muninn þegar síðari hálfleikur var rétt tæplega hálfnaður þegar Noni Madueke stýrði fyrirgjöf Mateo Kovacic í netið, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð 3-1 sigur Arsenal.

Með sigrinum lyfti Arsenal sér aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar, en liðið er nú með 78 stig eftir 34 leiki, tveimur stigum meira en Manchester City sem situr í öðru sæti og hefur leikið tveimur leikjum minna.

Chelsea situr hins vegar í 12. sæti deildarinnar með 39 stig eftir 33 leiki og liðið er án sigurs í sjö deildarleikjum í röð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira