Enski boltinn

Arteta vill breyta leikmannahópi Arsenal eftir tímabilið

Jón Már Ferro skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. Julian Finney/Getty

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, segist vera tilbúinn að taka erfiðar ákvarðanir eftir tímabilið. Jafnframt segir hann að yfirstandandi tímabil sé það mest spennandi í 22 ár.

Leikmannahópur Arsenal er ekki jafn breiður og leikmannahópur Manchester City, keppinauta þeirra um enska úrvalsdeildartitilinn. 

Í undanförnum leikjum hafa meiðsli lykilmanna greinilega haft mikil áhrif á varnarleik liðsins. Rob Holding hefur til að mynda þurft að standa í vörn Arsenal en hann hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár og er ekki talinn nógu góður fyrir lið sem ætlar sér að vinna ensku úrvalsdeildina. 

Arteta segir að nauðsynlegar breytingar þurfi að verða á liðinu eftir tímabilið til að byggja á árangrinum sem náðst hefur.

„Þetta eru alltaf erfiðar ákvarðanir. Sama hvort það er að finna nýja leikmenn eða aðrar ákvarðanir. Stundum vilja leikmenn ekki vera áfram hjá okkur. Breytingarnar snúast alltaf um að vinna en þær geta verið erfiðar,“ segir Arteta.

Arsenal er í titilbaráttu við Manchester City en hefur farið illa að ráði sínu í undanförnum leikjum. Liðið gerði þrjú jafntefli í röð og tapaði illa fyrir City 4-1 í síðasta leik. 

Arsenal á sex leiki eftir af ensku úrvalsdeildinni og er með einu stigi minna en City sem á leik til góða. Ekki er langt síðan Arsenal var með átta stigum meira en City en meiðsli lykilmanna í vörn Arsenal hafa reynst dýrkeypt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×