Enski boltinn

Ten Hag: Við verðum að nýta okkar færi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurmark Brighton í kvöld kom í uppbótartíma.
Sigurmark Brighton í kvöld kom í uppbótartíma. Vísir/Getty

Erik Ten Hag var svekktur eftir tap Manchester United gegn Brighton í kvöld. Mark Brighton kom úr vítaspyrnu á níundu mínútu uppbótartíma.

„Það var enginn tími til að koma til baka en við verðum að gera það á sunnudaginn,“ sagði Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir tapið í kvöld. United á leik gegn West Ham á sunnudag.

„Þetta snýst um þýðingu fyrsta marksins. Okkar færi voru betri en þeirra en við þurfum að skora úr þeim. Við misstum stjórn á leiknum í lokin og miðjan var of opin.“

Vítaspyrnan í uppbótartíma var dæmd eftir að boltinn fór í höndina á Luke Shaw eftir hornspyrnu. Atvikið var klaufalegt en Ten Hag vildi ekki henda Shaw undir rútuna.

„Luke Shaw átti frábæran leik. Þetta var leikur mistaka og hann gerði ein slík en þetta var óheppni því aukaspyrnan sem hornspyrnan kom svo upp úr átti aldrei að vera aukaspyrna.“

United er enn í fjórða sæti deildarinnar en Liverpool er ekki langt á eftir þó forskot United sé enn öruggt. Brighton lyfti sér hins vegar upp í sjötta sæti deildarinnar með sigrinum.

„Þetta er gott lið. Við vorum sterkari í fyrri hálfleik en undir lokin leystist leikurinn aðeins upp en við hefðum þurft að skora fyrsta markið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×