Enski boltinn

Eigin­kona hans til 49 ára hélt að hann væri að atast í sér

Aron Guðmundsson skrifar
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Leeds United
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Leeds United Vísir/Getty

Sam Allar­dyce, betur þekktur sem Stóri Sam, stýrir Leeds United í fyrsta sinn í dag er liðið tekur á móti Manchester City í ensku úr­vals­deildinni.

Allar­dyce, sem hefur marga fjöruna sopið í knatt­spyrnu­heiminum, fær það verk­efni að reyna halda sæti Leeds United í deild þeirra bestu þegar að að­eins fjórar um­ferðir eru eftir af yfir­standandi tíma­bili.

Í við­tali við Sky Sports segir Allar­dyce, sem margir héldu að væri hættur knatt­spyrnu­þjálfun, frá því hvernig eigin­kona hans trúði því ekki þegar að hann tjáði henni að kallið væri komið frá Leeds United.

„Hún hélt að ég væri að atast í sér,“ segir Allar­dyce í við­tali við Sky Sports. Tæki­færið til að taka við stjórnar­taumunum hjá Leeds United hafi verið eitt­hvað sem hann vildi ekki láta fram hjá sér fara.

Það var því með blessun eigin­konu hans, en þau hafa verið gift í 49 ár, sem Allar­dyce á­kvað að stökkva til og reyna halda Leeds United í ensku úr­vals­deildinni.

„Þó ég sé 68 ára gamall og líti út fyrir að vera gamall er enginn sem stendur mér framar í knatt­spyrnu­fræðunum. Hvorki Pep Guar­diola, Jur­gen Klopp eða Mikel Arteta. Þeir gera það sem ég geri og öfugt.“

Allar­dyce hefur fulla trú á getu sinni sem knatt­spyrnu­stjóri, enda marg­reyndur í bransanum, og fyrsti leikur hans með Leeds United fer fram seinna í dag þegar að liðið tekur á móti Eng­lands­meisturum Manchester City.

Hann veit af hættunni sem fylgir Manchester City, liði sem gæti með sínum leik­manna­hópi stillt upp tveimur sterkum liðum.

Að­spurður hvort hann gæti leikið eftir af­rek Guar­diola hjá Manchester City var ekkert hik á Allar­dyce.

„Auð­vitað. Leik­mennirnir gera þig að góðum knatt­spyrnu­stjóra og þjálfara. Þitt hlut­verk er að geta átt í sam­skiptum við þessa leik­menn. Ég myndi eiga góðan nætur­svefn ef ég væri með þessa leik­menn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×