Fótbolti

Tuttugasti bikartitill Real Madrid í höfn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rodrygo fagnar sigurmarki sínu í leiknum í kvöld.
Rodrygo fagnar sigurmarki sínu í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Real Madrid er spænskur bikarmeistari í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á Osasuna í bikarúrslitaleik í kvöld. Rodrygo var hetja Real en hann skoraði bæði mörk liðsins í leiknum.

Real Madrid sló Barcelona út í undanúrslitum en Osasuna lagði Athletic Bilbao í sínu einvígi. Liðin eru á ólíkum stöðum í deildakeppninni, Real situr í öðru sætinu á eftir Barcelona en Osasuna í 10. sætinu.

Leikurinn sem fór fram í Sevilla byrjaði heldur betur vel því Rodrygo kom liðinu yfir strax á annarri mínútu leiksins eftir sendingu frá landa sínum Vinicius Jr. Héldu eflaust margir að eftirleikurinn yrði auðveldur fyrir Real en liðinu tókst ekki að bæta við forystuna í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 1-0.

Leikmenn Osasuna lögðu árar að sjálfsögðu ekki í bát. Á 58. mínútu jafnaði Lucas Torro metin eftir sendingu Abdessamad Ezzalzouli. 

Það var hins vegar Rodrygo sem reyndist hetja Real Madrid. Hann skoraði sitt annað mark og sigurmarkið í leiknum á 70. mínútu eftir mistök í vörn Osasuna. Leikmönnum Osasuna tókst ekki að jafna undir lokin og það voru því leikmenn Real Madrid sem fögnuðu tuttugasta bikartitli félagsins en liðið varð síðast meistari vorið 2014.

Real Madrid leikur í vikunni fyrri leik sinni í undanúrslitaeinvígi Meistaradeildarinnar gegn Manchester City. Sigurinn í kvöld gefur liðinu gott veganesti fyrir þann leik en Real hefur ekki verið þekkt fyrir að tapa mikilvægum leikjum á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×