Enski boltinn

„Þetta voru hræðileg mistök“

Smári Jökull Jónsson skrifar
David De Gea gerði hræðileg mistök í marki West Ham.
David De Gea gerði hræðileg mistök í marki West Ham. Vísir/Getty

David De Gea gerði sig sekan um slæm mistök í sigurmarki West Ham gegn Manchester United í dag. Baráttan um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili opnaðist upp á gátt eftir úrslit helgarinnar.

West Ham vann 1-0 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag en það var Said Benrahma sem skoraði sigurmark West Ham í fyrri hálfleik. Hann skaut að marki fyrir utan vítateig og David De Gea, markvörður United, missti boltann á einhvern ótrúlegan hátt framhjá sér og í netið.

Úrslitin eru bagaleg fyrir United sem hefði getað lyft sér upp í þriðja sætið með sigri og í leiðinni stigið stórt skref í átt að sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Liðið er nú stigi á undan Liverpool með einn leik til góða. United á fjóra leiki eftir í deildinni en Liverpool þrjá. Newcastle er í þriðja sætinu, þremur stigum á undan Liverpool og á fjóra leiki eftir líkt og United. 

Hér sést Said Benrahma skjóta að marki en David De Gea náði ekki að verja fremur laust skot Benrahma.Vísir/Getty

Eftir leik vildi Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri United, ekki skella skuldinni á spænska markvörðinn.

„Mistök eru hluti af knattspyrnu og í þessu liði þarftu að takast á við þau og koma til baka vegna þess að þetta er liðsíþrótt,“ sagði Ten Hag í viðtali eftir leikinn.

„Hann er sá markvörður sem heldur einna oftast hreinu og það gerum við líka sem lið. Þetta getur gerst, þetta er fótbolti en allir þurfa að taka ábyrgð.“

„Gerir stór mistök í stórum leikjum“

Samningur De Gea rennur út að tímabilinu loknu og hafa samningaviðræður um framleningu staðið yfir síðustu vikur og mánuði. Mistök eins og þau sem De Gea gerði í dag hjálpa honum varla á þeirri vegferð að sækja nýjan samning hjá United.

„Spurningin er hvort hann sé nógu góður í fótunum til að spila eins og Erik Ten Hag vill,“ sagði Rio Ferdinand, fyrrum landsliðsmaður og leikmaður United, eftir leikinn í dag.

„Hvað varðar það að verja skot þá gerði hann mistök í dag, en það er ekki það sem er málið. Er hann nógu góður knattspyrnumaður til að spila fyrir Manchester United?“

Peter Crouch var með Ferdinand í stúdíói BT Sport eftir leik. Hann sagði ekki hægt að fara í felur með það að mistök De Gea í dag hefðu verið hræðileg.

„Ef hann er í samningaviðræður þá hjálpar það ekki að gera svona mistök. Hann hefur verið frábær markvörður á síðustu árum en í augnablikinu líður manni þannig að hann geri stór mistök í stórum leikjum. David De Gea klúðraði í dag, við getum ekki sykurhúðað það. Það er ekki hægt að réttlæta þetta á neinn hátt, þetta voru hræðileg mistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×