Enski boltinn

E­ver­ton kláraði Brig­hton í fyrri hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir voru frábærir í dag.
Þessir tveir voru frábærir í dag. Charlie Crowhurst/Getty Images

Everton vann magnaðan 5-1 útisigur á Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Gestirnir frá Bítlaborginni eru í bullandi fallbaráttu á meðan Brighton lætur sig dreyma um að spila í Evrópu á næstu leiktíð.

Fyrir leik var hinn 21 árs gamli João Pedro kynntur til leiks hjá Brighton en hann mun ganga til liðs við félagið í sumar eftir að hafa spilað með Watford frá 2020. Um er að ræða framherja frá Brasilíu og hefði Brighton getað nýtt krafta hans í dag.

Það tók lærisveinar Sean Dyche innan við mínútu að komast yfir. Abdoulaye Doucoure kom boltanum þá í netið eftir sendingu frá Dominic Calvert-Lewin. Þegar tæpur hálftími var liðinn tvöfaldaði Doucoure forystuna eftir undirbúning Dwight McNeil.

McNeil var svo aftur á ferðinni sex mínútum síðar þegar hann komst upp að endalínu og gaf fyrir en Jason Steele, markvörður Brighton, tókst ekki betur til og „varði“ boltann í netið. Sjálfsmark niðurstaðan og staðan 3-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Heimaliðið gerði fjórar skiptingar í hálfleik en það breytti litlu. Heimamenn náðu ekki að brjóta niður vel skipulagða vörn gestanna og McNeil bætti við fjórða marki Everton þegar stundarfjórðungur var til loka venjulegs leiktíma.

Alexis Mac Allister minnkaði muninn í 1-4 þegar tíu mínútur lifðu leiks og við það virtust heimamenn vakna af værum blundi. Nær komst Brighton ekki og til að fullkomna daginn þá skoraði McNeil eftir skyndisókn þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 1-5 og Everton vann dýrmætan sigur í fallbaráttunni.

Everton lyftir sér með sigrinum upp í 16. sæti með 32 stig eftir 35 leiki, tveimur stigum meira Leicester City, Nottingham Forest og Leeds United sem sitja í sætunum þar fyrir neðan. Brighton er í 7. sæti - sem gefur sæti í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð - með 55 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×