Í gær var greint frá því að ekkert yrði að kaupum íslenskra lífeyrissjóða á hlut í leigufélaginu Heimstaden. Var þar sagt að þar með væri ekki hægt að halda uppi viðskiptamódeli félagsins sem gengur út á að lífeyrissjóðir og aðrir stórir fjárfestar eigi meirihluta félagsins á móti Heimstaden.
Í kjölfar þess birtust fréttir um að leigufélagið ætlaði að selja allar sínar íbúðir á Íslandi. Egill Lúðvíksson, sem tekur við sem framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi um næstu mánaðamót, segir þó að svo sé ekki raunin. Félagið sé eins og er einungis að minnka umsvif sín á markaði og mun það taka nokkur ár að selja allar eignir þess.
„Ferlið að skala niður eignasafnið gæti hæglega tekið 4-5 ár. Við munum leitast við að nálgast þetta af varfærni og reyna að takmarka neikvæð áhrif á leigumarkaðinn eins og unnt er,“ segir Egill í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu.
Hraði ferlisins mun fara eftir markaðsaðstæðum og hvort einhver vilji stíga inn í reksturinn, taka yfir eignir og halda þeim í leigu.
„Við munum leitast við að finna kaupendur sem eru tilbúnir að bjóða eignir til áframhaldandi langtímaleigu og lágmarka rask fyrir okkar viðskiptavini. Við munum skoða þá möguleika á næstunni. En líklega fara einnig eignir í sölu á almennum markaði,“ segir Egill.
Í tilfellum þar sem selja á stakar íbúðir með leigusamningum til staðar þá verður leigjendum boðinn forkaupsréttur á þeim.
„Við gerum okkur grein fyrir því að margir af okkar leigjendum munu ekki hafa tök á slíku, en munum samt reyna að hjálpa þeim við slíkt,“ segir Egill.