„Loksins kláruðum við þetta og þetta var vel spilaður leikur og ég var ánægður með hvernig við héldum haus og hrós á drengina þetta var virkilega vel gert,“ sagði Gunnar Magnússon og hélt áfram.
„Mér fannst lykillinn núna hvernig við spiluðum sóknarleikinn í síðari hálfleik móti þeirra varnarleik og við leystum hann miklu betur núna sem hjálpaði mikið til. Í svona einvígi verður maður að finna smáatriði til að laga. Þetta var ekkert ósvipað leik tvö og þrjú en núna héldum við haus í lokin.“
Gunnar Magnússon skipti um markmann frá því í síðasta leik og byrjaði með Brynjar Vigni Sigurjónsson sem spilaði ekki mínútu í síðasta leik.
„Jovan Kukobat spilaði í 70 mínútur síðast og við vildum ferskan mann inn. Brynjar hefur átt fullt af góðum leikjum þegar hann hefur byrjað og ég var svekktur út í sjálfan mig að hafa tekið hann út af í hálfleik þar sem það voru mistök. Brynjar kom og varði mikilvæga bolta í seinni hálfleik.“
Gunnar hrósaði þessu frábæra einvígi og var spenntur fyrir oddaleiknum á þriðjudaginn.
„Þetta var fyrir okkar stuðningsmenn og alla sem hafa áhuga á handbolta að koma þessu einvígi í oddaleik. Þvílíkt einvígi þar sem allir hafa verið að tala um dómarana en við erum með þvílíkt magn af flottum leikmönnum. Við verðum að njóta þess að horfa á þá spila hérna á landinu þar sem þetta eru framtíðar atvinnumenn og þetta er algjör veisla,“ sagði Gunnar Magnússon að lokum spenntur fyrir oddaleiknum.