Erlent

Stjórnar­and­staðan vann mikinn sigur í Taí­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 42 ára Pita Limjaroenrat er líklegur til að verða næsti forsætisráðherra Taílands.
Hinn 42 ára Pita Limjaroenrat er líklegur til að verða næsti forsætisráðherra Taílands. AP

Stjórnarandstöðuflokkar í Taílandi unnu mikinn sigur í þingkosningunum sem fram fóru um helgina og virðast landsmenn hafa snúið baki við hernum sem stýrt hefur landinu síðustu ár.

Bráðabirgðatölur benda til að flokkurinn Förum áfram hafi tryggt sér rúmlega 150 af þeim fimm hundruð þingsætum sem í boði eru. Flokkurinn er nú með tíu þingsæti fleiri en flokkurinn Pheu Thai sem Paetongtarn Shinawatra, dóttir Thaksin Shinawatra, leiðir.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa talað fyrir róttækum breytingum á stjórnkerfi landsins og segja fréttaskýrendur að niðurstöður kosninganna bendi til að miklar breytingar á almenningsáliti hafi orðið.

Bandalag tveggja stjórnarflokka, sem hafa stutt herstjórnina, hlutu einungis um fimmtán prósent þingsæta, þar með talinn flokkur forsætisráðherrans Prayuth Chan-ocha sem leiddi valdarán hersins árið 2014.

Hinn 42 ára Pita Limjaroenrat, leiðtogi flokksins Förum áfram, sagði á samfélagsmiðlum eftir að línur voru teknar að skýrast, að hann væri reiðubúinn að taka við sem þrítugasti forsætisráðherra landsins.

Pita sagðist sömuleiðis tilbúinn að fara í stjórnarmyndunarviðræður með fimm flokkum, meðal annars Pheu Thai.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×