Erlent

„Mér finnst Úkraínu­menn þegar hafa unnið þetta stríð“

Atli Ísleifsson skrifar
Edgar Rinkēvič er utanríkisráðherra Lettlands, en Lettar taka við formennsku í Evrópuráðinu í lok fundarins í dag.
Edgar Rinkēvič er utanríkisráðherra Lettlands, en Lettar taka við formennsku í Evrópuráðinu í lok fundarins í dag. Stöð 2

Utanríkisráðherra Lettlands segir að Úkraínumenn hafi þegar unnið stríðið sem Rússar hófu með innrásinni í Úkraínu í febrúar á síðasta ári.

„Mér finnst Úkraínumenn þegar hafa unnið þetta stríð. Fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafa þeir tryggt sjálfstæði sitt. Kænugarður hefur ekki fallið, ríkisstjórnin er starfandi, herinn er starfandi og berst. Úkraínski herinn er svo að frelsa úkraínsk landsvæði. Rússland er veikt og Úkraína er sterk. Þeir hafa þegar unnið.“

Þetta sagði Edgar Rinkēvič, utanríkisráðherra Lettlands, í samtali við Heimi Má Pétursson fréttamann fyrir hádegi í dag, en utanríkisráðherrann er staddur hér á landi í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík. Lettar munu taka við formennsku í Evrópuráðinu af Íslendingum í lok fundarins.

Ráðherrann segir að það muni taka tíma að ná öllu því úkraínska landsvæði, sem Rússar hafi lagt undir sig, aftur úr höndum Rússa. „Það verður erfitt en ég er sannfærður þar sem ég hef heimsótt Úkraínu og séð að úkraínskir menn og konur munu nú, sem áður, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna stríðið.“

Eigi skilið að verða fullgildir NATO-aðilar

Rinkēvič segist vera á þeirri skoðun að Úkraína eigi skilið að verða fullgildur aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO. 

Það muni þó ekki gerast á leiðtogafundinum sem fyrirhugaður er í litháísku höfuðborginni Vilníus í júlí, en ráðherrann segir nauðsynlegt að þar verði lagður fram vegvísir að því hvernig Úkraína geti gerst fullgildur aðili.

Sjá má viðtalið í heild sinni við Rinkēvič í spilarnum að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×