Körfubolti

Miami Heat stal leik eitt í Garðinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það virðist enginn geta stöðvað Jimmy Butler.
Það virðist enginn geta stöðvað Jimmy Butler. Adam Glanzman/Getty Images

Úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta eru farin af stað. Í nótt fór fram fyrsti leikur einvígisins í Austurdeildinni þar sem Boston Celtics tók á móti Miami Heat. Fór það svo að Heat vann sjö stiga sigur, lokatölur 116-123.

Allir veðbankar og allir spekingar vestanhafs – sem og víðar – spá því að Boston vinni einvígið og fari í úrslit NBA-deildarinnar annað árið í röð. Það virtist stefna í það en Boston var betri aðilinn framan af leik næturinnar og leiddi mest með 13 stigum.

Í þriðja leikhluta leiksins snerist taflið hins vegar við. Sóknarleikur Miami fór bókstaflega á flug á meðan heimamenn hikstuðu. Miami vann leikhlutann með 21 stigi eftir að skora alls 46 stig í leikhlutanum. Gestirnir skoruðu ekki yfir 30 stig í hinum þremur leikhlutum leiksins.

Þó Celtics hafi haldið spennu í þessu í fjórða leikhluta var það Úrslitakeppnis-Jimmy [e. Playoff Jimmy] Butler sem tryggði Miami Heat mikilvægan sigur í TD Garden í Boston. Leikurinn vannst á endanum með sjö stigum, 116-123.

Butler fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði 35 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst á þeim 43 mínútum sem hann spilaði. Þar á eftir kom Bam Adebayo með 20 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Þeir Gabe Vincent, Max Strus, Caleb Martin og Kyle Lowry skoruðu allir 15 stig á meðan gamla brýnið Kevin Love skoraði 8 stig og tók 6 fráköst.

Í liði Celtics var Jayson Tatum stigahæstur með 30 stig, 7 fráköst og staka stoðsendingu. Jaylen Brown kom þar á eftir með 22 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar á meðan Malcolm Brogdon skoraði 19 stig.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×