Erlent

Annar ríkustu bræðra Bret­lands er látinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hinduja-bræðurnir árið 2007. SP er til vinstri á myndinni.
Hinduja-bræðurnir árið 2007. SP er til vinstri á myndinni. Getty/Dave M. Benett

Srichand Hinduja, stjórnarformaður The Hinduja Group, er látinn, 87 ára að aldri. Glímdi hann við heilabilun síðustu ár lífs síns. 

Hinduja, sem var ávallt kallaður SP, og bróðir hans, Gopichand, eru eigendur Hinduja Group en í fyrra voru eignir þeirra metnar á 36 milljarða dollara, fimm þúsund milljarða króna. Er fyrirtækið með yfir tvö hundruð þúsund starfsmenn í þrjátíu löndum og á fullt af fyrirtækjum í Indlandi, til að mynda banka og tæknifyrirtæki. Höfuðstöðvar þess eru í Bretlandi.

„Það er með mikilli sorg sem við tilkynnum andlát föður okkar. SP var hugsjónaríkur risi innan iðnaðar og viðskiptaheimsins. Hann var mikill mannvinur og snerti ótal mannslíf á lífsleið sinni. Við erum ævinlega þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með honum,“ hefur CNN eftir dætrum SP. 

SP og Gopichand höfðu eldað grátt silfur um smá tíma þar sem þeir voru ósammála um framtíð fyrirtækisins. Hafði Gopichand krafist þess að bróðir sinn myndi láta af sem stjórnarformaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×