Skráning tjóns af völdum Rússa í úkraínu, umhverfismál og málefni mannréttindadómstóls Evrópu voru meðal þess sem ályktað var um á leiðtogafundinum, en forsætisráðherra segir tímann þurfa að leiða í ljós hversu mikil áhrif fundarins verða.
Umdeildur flokkur Ítalans
„Við eigum auðvitað eftir að sjá þegar lengra líður frá hver áhrif [fundarins] verða i raun og veru. Það eru auðvitað ákveðnar áþreifanlegar niðurstöður sem snúast fyrst og fremst um ábyrgðarskyldu Rússa gagnvart sínum verkum í Úkraínu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Athygli vakti hversu innilega vel fór á með Katrínu og Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Flokkur Meloni, Bræðralag Ítalíu, á ættir að rekja til fasistaflokka og hefur þótt andsnúinn innflytjendum, hinsegin fólki og réttinum til þungunarrofs.
Katrín vísar þessari gagnrýni á bug.
„Fundurinn sem hér var haldinn er leiðtogafundur Evrópuráðsins og Ísland er gestgjafi þessa fundar - og hann sækja leiðtogar allra aðildarríkja Evrópuráðsins. Það er ekki þannig að ég láti stjórnmálaskoðanir mínar trufla það hvernig ég tek á móti fólki sem er hingað að koma, til alvarlegs samtals um risastór mál á vettvangi alþjóðastofnunar, heldur tek ég vel á móti öllum.“
Hefðir þú átt að vera kuldalegri?
„Að sjálfsögðu ekki.“
Sprengjusérfræðingar frá Noregi
Mikið umstang og skipulagning fylgdi fundinum. Lúxusbílar sem fluttir voru inn til þess að ferja leiðtogana milli staða í borginni verða ekki fluttir aftur út heldur fara í sölu. Eins og fréttastofa greindi frá í dag er þegar búið að selja helming þeirra bíla sem keyptir voru.
Þá var viðbúnaður lögreglu vegna fundarins mikill og þurfti að þjálfa um þrjú hundruð lögreglumenn sérstaklega í meðferð skotvopna. Tölur liggja ekki fyrir um heildarfjölda þeirra sem tóku þátt í gæslunni en lögreglan naut liðsinnis 116 erlendra lögreglumanna og sérfræðinga.
Sérsveitarmenn og sprengjusérfræðingar komu frá Noregi og sérfræðingar í drónavörnum frá Danmörku. Frá Finnlandi komu sérfræðingar í drónavörnum og öryggisleit og nokkur aðstoð kom frá Europol, landamæraeftirliti Evrópu, auk frekari utanaðkomandi ráðgjafar.
Sextíu sendinefndir sem sóttu fundinn nutu vopnaðrar gæslu – og á meðal þess sem keypt var inn fyrir fundinn voru skotvopn. Ekkert fæst uppgefið um umfang þeirra kaupa að svo stöddu, né hvað gert verður við vopnin nú þegar fundinum er lokið.