Erlent

Selenskí kominn til Japans

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í Hírósjíma í morgun.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í Hírósjíma í morgun. AP/Stefan Rousseau

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, lenti í Japan í morgun þar sem hann mun sækja leiðtogafund G-7 ríkjanna. Þar hefur þegar verið ákveðið að herða viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Hann hefur hitt nokkra þjóðarleiðtoga á hliðarlínum fundarins en mun taka þátt í umræðum á morgun.

Forsetinn lenti óvænt í Sádi-Arabíu í gær þar sem hann fundaði með leiðtogum Arababandalagsins.

Selenskí hefur verið á farandfæti að undanförnu en Úkraínumönnum er mikilvægt að tryggja sér alla þá aðstoð sem þeir geta, hvort sem þar er um að ræða pólitíska aðstoð, hernaðaraðstoð eða fjárhagsaðstoð.

Úkraínumenn eru taldir undirbúa umgangsmikla gagnsókn gegn Rússum á næstunni en þeir hafa verið að þjálfa nokkurn fjölda nýrra hermanna sem búnir eru vestrænum vopnum og bryn- og skriðdrekum.

Selenskí mætti til Japans degi eftir að yfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu að þau styddu þjálfun úkraínskra hermanna á F-16 herþotur. Þá hafa Bandaríkjamenn sagt að þeir séu ekki mótfallnir því að aðrir eigendur F-16 sendi þotur til Úkraínu en Úkraínumenn hafa lengi beðið um þær til að leysa gamlar herþotur þeirra frá tímum Sovétríkjanna af hólmi.

AP fréttaveitan hefur eftir embættismanni úr Evrópusambandinu um að Selenskí muni taka þátt í tveimur viðræðum á morgun. Sú fyrri verður með leiðtogum G-7 ríkjanna og mun snúast um innrás Rússa í Úkraínu. Fleiri leiðtogum hefur verið boðið að taka þátt í síðari umræðunni þar sem rætt verður um frið og stöðugleika.

Selenskí hefur í morgun rætt við nokkra þjóðarleiðtoga eins og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Hann mun einnig ræða við Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, á fundinum.


Tengdar fréttir

Hafa gert umfangsmiklar breytingar á rússneska hernum

Forsvarsmenn rússneska hersins hafa þurft að gera umfangsmiklar breytingar á heraflanum, sökum mikils mannfalls og annarra vandræða tengdum innrás Rússa í Úkraínu. Margar af þessum breytingum hafa reynst vel og er herinn betur fallinn að átökunum í austurhluta landsins.

Bid­en sam­þykk­ir þjálf­un úkr­a­ínskr­a flug­mann­a

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði öðrum leiðtogum á leiðtogafundi G-7 ríkjanna að Bandaríkjamenn styddu alþjóðlegt verkefni sem snýr að því að þjálfa úkraínska flugmenn á vestrænar herþotur og þar á meðal F-16, sem Úkraínumenn hafa beðið um um nokkuð skeið.

Rússar skutu eldflaugum á Kænugarð og Ódessa-fylki

Rússar skutu eldflaugum á Kænugarð og aðra hluta Ódessa-fylkis í morgun. Að sögn Úkraínumanna lést einn í árásunum og voru flestar eldflauganna skotnar niður. Talið er að árásin sé hluti af stigmögnun fyrir yfirvofandi gagnsókn Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×