Skyttunum í Arsenal hefur fatast flugið að undanförnu eftir að hafa lengi vel verið í forystunni í ensku úrvalsdeildinni.
Fyrir leik liðsins gegn Nottingham Forest í dag var ljóst að Manchester City yrði Englandsmeistari ef Arsenal myndi tapa leik sínum gegn Forest.
Svo varð raunin en eina mark leiksins skoraði Taiwo Awoniyi, fyrir Nottingham Forest, á 19.mínútu eftir stoðsendingu frá Morgan Gibbs-White.
Manchester City varð því svokallaður "sófameistari" en liðið á leik á morgun á heimavelli gegn Chelsea þar sem að gleðin verður við völd.
Þetta er í níunda skiptið í sögunni sem Manchester City verður Englandsmeistari og þriðja tímabilið í röð sem liðið tryggir sér titilinn.
Að sama skapi veldur sigur Nottingham Forest því að nýliðarnir eru öruggir með að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.