Hópur stuðningsmanna Valencia tók sig til og beindu apahljóðum í áttina að Vinicius Junior í leik Valencia gegn Real Madrid í gærkvöldi.
Ancelotti, sem er margreyndur knattspyrnustjóri, sakar stjórnendur spænsku úrvalsdeildarinnar um getu- og aðgerðarleysi þegar kemur að því að taka á kynþáttaníð á leikjum deildarinnar.
Vinicius gerði dómara leiksins í leik Valencia og Real Madrid viðvart er honum ofbauð hegðun stuðningsmanna Valencia en dómarinn lét leikinn halda áfram í stað þess að taka á málinu og stöðva leik.
,,Þú verður að stöðva leikinn við svona aðstæður," sagði Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid eftir leik gærkvöldsins. ,,Það er ekki hægt að halda áfram við svona aðstæður. Ég sagði við dómarann að ég væri að íhuga að skipta leikmanninum af velli. Það er hugsun sem hefur aldrei áður skotið upp kolli hjá mér."
Um afar sorglegar aðstæður sé að ræða.
,,Hann vill bara spila knattspyrnu, hann er ekki reiður en hann er sorgmæddur yfir því sem átti sér stað"
Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem Vinicius Junior verður fyrir kynþáttaníð á knattspyrnuleikvöngum Spánar.
,,Honum er sýnd vanvirðing á öllum knattspyrnuleikvöngum á Spáni," sagði Dani Ceballos, liðsfélagi Vinicius. ,,Við verðum að vernda hann, þetta getur ekki haldið áfram svona."