Fótbolti

Hrósar De Zerbi í há­stert og segir hann einn á­hrifa­mesta stjóra síðustu ára­tuga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola er virkilega hrifinn af því sem Roberto de Zerbi hefur gert með Brighton.
Pep Guardiola er virkilega hrifinn af því sem Roberto de Zerbi hefur gert með Brighton. Visionhaus/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, hrósar kollega sínum hjá Brighton, Roberto de Zerbi, í hástert og segir hann einn áhrifamesta þjálfara síðustu tuttugu ára.

Guardiola og lærisveinar hans tryggðu sér enska meistaratitilinn þriðja árið í röð um síðustu helgi, en þrátt fyrir það eru margir sammála um það að Ítalinn Roberto de Zerbi eigi skilið að verða valinn besti þjálfari tímabilsins.

De Zerbi tók við Brighton í septembar á síðasta ári eftir að Graham Potter yfirgaf liðið til að taka við Chelsea. Undir stjórn Ítalans er liðið búið að tryggja sér sæti í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögunni. Brighton situr í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 61 stig þegar liðið á tvo leiki eftir.

„Roberto er einn af áhrifamestu þjálfurum seinustu tuttugu ára,“ sagði Guardiola um kollega sinn á blaðamannafundi í gær, en þeir félagar mætast á hliðarlínunni þegar Brighton og Manchester City eigast við í kvöld.

„Það er ekkert lið sem spilar eins og þeir. Þeir spila einstakan fótbolta,“ bætti Spánverjinn við.

„Ég hafði það á tilfinningunni að hann myndi hafa mikil áhrif á liðið þegar hann tók við, en ég bjóst ekki við því að hann myndi gera það á svona stuttum tíma. Þeir skapa 20-25 færi í hverjum einasta leik, miklu meira en langflestir andstæðingar þeirra.“

„Þeir eiga allan þann árangur sem þeir hafa náð fullkomlega skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×