Loftvarnakerfi Kænugarðs eyðilagði fleiri en þrjátíu eldflaugar og árásardróna í morgun í enn einni árásinni á Kænugarð. Engar upplýsingar hafa enn borist um manntjón.
Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, sagði í yfirlýsingu að sprengingar væru í borginni en að loftvarnakerfið væri að virka. Serhiy Popko, yfirmaður hermála í Kænugarði, sagði þá að þetta væri sjötta árásarhrinan í borginni á aðeins sex dögum.
Borgaryfirvöld segja að konurnar tvær og níu ára stúlkan sem létust í árásunum snemma í gærmorgun hafi reynt að leita skjóls í sprengjubyrgi sem reyndist lokað.