Fótbolti

Nagelsmann vill fá Henry með sér til PSG

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Julian Nagelsmann vill að Thierry Henry verði aðstoðarmaður sinn hjá PSG.
Julian Nagelsmann vill að Thierry Henry verði aðstoðarmaður sinn hjá PSG. Vísir/Getty

Þýski knattspyrnustjórinn Julian Nagelsmann vill að Thierry Henry, fyrrverandi leikmaður Arsenal og franska landsliðsins, komi með sér til Parísar og verði aðstoðarmaður sinn hjá franska stórveldinu Paris Saint-Germain.

Nagelsmann var látinn fara frá Bayern München í mars á þessu ári og hefur verið í atvinnuleit síðan. Hann hefur verið orðaður við lið á borð við Chelsea og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, en er nú í viðræðum við PSG um að taka við liðinu af Christophe Galtier.

Á vef breska miðilsins The Telegraph er nú greint frá því að Nagelsmann vilji fá Arsenalgoðsögnina Thierry Henry með í þjálfarateymið fái hann þjálfarastarfið. Nagelsmann og Henry hafa hins vegar aldrei áður unnið saman.

Henry er þekktastur fyrir tíma sinn sem leikmaður þar sem hann lék með liðum á borð við Arsenal, Juventus og Barcelona. Með Arsenal skoraði hann 175 deildarmörk sem gerir hann að sjöunda markahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Þá er hann einnig næst markahæsti leikmaður franska landsliðsins frá upphafi með 51 mark í 123 leikjum.

Henry er þó enginn nýgræðingur í þjálfun þar sem hann hefur verið aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins í tvígang, ásamt því að hafa þjálfað Monaco í frönsku deildinni og Montreal Impact í bandarísku MLS-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×