Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún er orðin fjölbreytt. Áður fyrr gekk hún miklu hægar yfir og þá var held ég meiri pressa á að fylgja henni. Í dag, fyrir utan að við erum orðin opnari fyrir alls kyns, er svo margt búið að koma kannski aftur og aftur í tísku, að fólk getur tjáð sig og klætt sig eins og því líður best.
Það er æðislegt að fólk eigi meiri séns á að vera það sjálft og skapa sinn eigin stíl. Mér líður allavega eins og ungt fólk í dag upplifi það frelsi sem ég held að hafi alls ekki verið til staðar þegar ég var yngri.
Svo erum við hægt og rólega að kveikja á perunni hvað það er mikilvægt fyrir komandi kynslóðir að við hægjum á okkur og endurnýtum. Extraloppan er til dæmis algjör snilld og mér finnst fataskiptapartý, þar sem fólk hittist með fötin sín og býttar í láni eða skiptum, skemmtileg hugmynd.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Mikið notuðu Levis gallabuxurnar mínar og fallega peysan sem mamma prjónaði á mig.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Já og nei.
Ég undirbý mig alltaf vel áður en ég fer á svið. Þá er ég búin að hanna sviðsframkomuna löngu áður í algjöru samfloti við fötin eða búninginn.
Mér finnst gaman að gera mig til fyrir tónleika og velta fyrir mér hvernig það spilar með öllu atriðinu mínu.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Vá, ætli ég sé ekki að þykjast vera einhver útgáfa af Elton John? Mér finnst skemmtilegast að vera í metal litum og litríkum flíkum og reyni að fara helst aldrei í neitt svart. Ég sturta svo bara glimmeri yfir mig og labba inn á svið.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já algjörlega. Hann hefur verið allskonar. Ég fylgist lítið með hvað er í tísku og hef held ég alltaf verið með smá tísku mótþróa. Þannig ég dett oftast seint inn í einhver trend. Svo í seinni tíð er ég bara búin að vera prófa helling.
Ég er á þeim stað í dag að sem ég spái nákvæmlega ekkert hvað er í tísku og fer algjörlega eftir hvernig mér líður og hvernig mig langar að vera.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Út um allt. Ég vil bara helst vera í litum og einhverju þægilegu. Fataskápurinn minn er í öllum heimsins litum og mér finnst leiðinlegt að vera alveg svartklædd.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég er algjörlega á móti feldi og pelsum og ég mun ekki kaupa mér neitt úr alvöru leðri aftur. Ég gerðist vegan fyrir sex árum og er mjög meðvituð um að nota ekki dýraafurðir í lífi mínu. Mér finnst mjög taktlaust og hallærislegt að sjá feld notaðan í hönnun nú til dags.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég held það sé örugglega bleiki fringe jakkinn sem ég var í á sviðinu í Eyjum í fyrra þegar ég frumflutti þjóðhátíðarlagið. Bæði því þetta er mest iconic jakki sem ég á og svo líka því þetta var svo iconic móment í mínum ferli.
Þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem einungis konur áttu sviðið við þetta tilefni og ég fór bara all in í því. Öll í bleiku og glimmeri. Ég geymi jakkann jafn vel og þessa minningu.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Nú er ég órafjarlægð frá því að vera sérfræðingur og ætti að vera síðasta manneskjan til að spyrja um tískuráð. Ætli það sé þó ekki bara að eltast ekkert of mikið við hana og fara í nákvæmlega það sem þig langar til.