Skoðun

Gagna­hlað­borð Reykja­víkur er komið í loftið

Alexandra Briem skrifar

Gagnahlaðborð Reykjavíkur er komið í loftið. Þar er að finna öll opin gögn borgarinnar á einum stað, frá fjármálum til sundstaða, sett fram á lifandi máta og á læsilegu formi sem krefst þess ekki að lesendur séu sérfræðingar í gagnavinnslu.

Þetta hlaðborð er liður í því að gera gögn borgarinnar aðgengilegri og auka þannig gagnsæi og möguleika íbúa á að taka þátt í umræðunni og kynna sér málefni borgarinnar. En því er auðvitað líka ætlað að gefa lifandi upplýsingar um það sem er að gerast. Til dæmis er hægt að fylgjast með því í gegnum Gagnahlaðborðið hversu margir gestir eru í sundlaugum hverju sinni, hvað er langt í næsta kjörstað, eða hver sé íbúafjöldinn í mismunandi hverfum. Með þessu er verið að skapa mikilvægt virði fyrir íbúa og einfalda fólki lífið um leið. Þetta er líka stuðningur við lýðræðislegt eftirlitshlutverk fjölmiðla.

Þarna er líka hægt að sjá opin fjármál borgarinnar og setja í samhengi, t.d. er hægt að bera saman hvaða sundlaugar skili mestum sölutekjum, hversu mikið fé fari í greiðslur vegna fjárhagsstuðning til framfærslu milli ára eða bera saman kolefnislosun í borginni milli ára.

Píratar leggja alla áherslu á lýðræði og gagnsæi og undanfarin ár hefur borgin verið á þeirri vegferð að gera gögn borgarinnar aðgengilegri, skiljanlegri og uppflettanleg.Gagnahlaðborðið er stór partur af þeirri vegferð.

Til þess hefur verið lyft grettistaki í uppfærslu stafrænna innviða og kerfa í sviðum borgarinnar og þeim verið gert kleift að tala saman og lesa gögn hvers annars. Það er líka mikilvægt að í þessu kerfi er hægt að sækja gögnin og nýta þau, til dæmis við rannsóknir eða nýsköpun.

Upplýsingagjöf til almennings er lykilatriði í upplýstu samtali og virku lýðræði. Það er einn af meginþáttum lýðræðisstefnu borgarinnar. Gagnahlaðborðið er ekki lokapunktur, en það er sannarlega bæði stórt og mikilvægt skref, og hér er hægt að skoða það.

Höfundur er formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×